Ólafur Marteinsson framkvæmdastjóri Ramma á Siglufirði greindi nemendum Menntaskólans á Tröllaskaga frá því að síðan hann hóf störf í sjávarútvegi hefði hann ekki séð jafn mikla verðlækkun á þorski á svo skömmum tíma eins og í síðasta mánuði.

Ástæða verðlækkunarinnar er einkum mikið framboð af þorski úr Barentshafi en einnig óvissa um efnahagsástand í Evrópu þar sem þorskneyslan er mest. Lækkunin hefur veruleg áhrif á afkomu íslensku sjávarútvegsfyrirtækjanna. Áhrifin verða því meiri sem þorskur er hærra hlutfall af afurðunum.

Um tvö hundruð og fimmtíu menn vinna hjá Ramma, þar af um 150 sjómenn. Fyrirtækið er stærsti launagreiðandi í Fjallabyggð og Þorlákshöfn og í hópi tíu stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins.

Verð á þorski, slægðum og hausskornum, frá og með 9. janúar 2012 verður eftirfarandi: Þorskur 6 kíló og stærri;17,25 krónur norskar á kíló (354 krónur íslenskar) og lækkar um 1,25 krónur. Þorskur 2,5-6 kíló;14,50 krónur á kíló (297 krónur íslenskar) og lækkar um 1 krónu. Þorskur 1-2,5 kíló; 12,50 krónur á kíló (256 krónur íslenskar) og lækkar um 1 krónu. Hrogn seljast á 7 krónur kílóið að lágmarki (143 krónur íslenskar) og lækka um 1,50 krónur. Lifur selst á 3 krónur á kíló (61 króna íslensk) og lækkar um 50 aura. Rétt er að hafa í huga þegar ofangreind verð eru borin saman við þorskverð á Íslandi að íslenska þorskinum er landað með haus ólíkt því sem venja er í Noregi.