Vegagerðin hefur sótt um framkvæmdaleyfi í Skagafirði vegna rannsóknaborana fyrir Fljótagöng.
Vegagerðin vinnur nú að undirbúningi og rannsóknum fyrir Fljótagöng. Hluti undirbúnings eru jarðfræðirannsóknir á gangaleið, því er áformað að bora eina 450 m djúpa kjarnaholu í Fljótum í landi Lambanes (146837) við fyrirhugaðan gangamunna. Til upplýsinga eru einnig tvær kjarnaholur áformaðar í Hólsdal, 120 m og 24 m djúpar.  Áætlað er að framkvæmdin í Fljótum taki á bilinu 4-8 vikur og boranir fari fram sumarið 2025.

Aðkoma að kjarnaholu er um slóða að túnum í landi Lambanes og þaðan upp að borstað. Aðkoma að borstað er ákvörðuð í samráði við landeigendur og eru þeir einnig upplýstir um rannsóknaboranirnar. Ekki er gert ráð fyrir að gera vegslóða til þess að komast að holunum en verktaki þarf að fara gætilega um svæðið og kappkosta þess að skilja eftir sig eins lítið rask og hægt er. Þess má þó vænta að sár eftir umferð verði sýnileg í nokkurn tíma eftir framkvæmd.

 

Ekki er gert ráð fyrir að útbúa sérstök borplön við borholurnar en verktaka er heimilt að slétta undir borinn telji hann þess þörf. Nákvæm staðsetning borholu verður ákveðin í samráði við verktaka í byrjun verks, minni færsla gæti orðið á borstað.

Gert er ráð fyrir að lágmarks starfsmannaaðstaða fylgi bornum og séu staðsett í nágrenni borsins. Vatn til borunar þarf að sækja næsta læk.

Vegagerðin hefur ráðið Völuberg ehf. sem mun hafa eftirlit með borunum og fara með aðrar jarðfræðirannsóknir og kortlagnir á svæðinu við jarðgöngin.

Vegagerðin vísar til þess að umrætt verkefni er á tillögu til samgönguáætlunar sem liggur til þingsályktunnar nú á haustþingi (2025) auk þess sem fyrirhuguð jarðgögn eru í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir. Hefur Vegagerðinni verið falið að hefja undirbúning á verkinu.

Skipulagsnefnd Skagafjarðar hefur samþykkt að leggja til við sveitarstjórn Skagafjarðar að veita umbeðið framkvæmdaleyfi.