Framboðskynningar í Fjallabyggð – 4. sæti X-I

Hrafnhildur Ýr Denke Vilbertsdóttir skipar 4. sæti I-lista Betri Fjallabyggðar.

„Mennta- og menningarmál eru mér mjög hugleikinn því öflugt menningarlíf eykur lífsgæði fólks og stuðlar að samfélagslegri og efnahagslegri velferð. Í skapandi hugsun og listum er fólgin kraftur sem nýtist við uppbyggingu hverskyns verkefna.“

Einnig leggur öflug menntastefna grunninn að kraftmiklu, framsæknu og öflugu atvinnulífi og er lykillinn að virkri þátttöku einstaklinga í atvinnulífinu sem og samfélaginu almennt.

Helstu áherslur Hrafnhildar Ýrar í bæjarmálum eru mennta- og menningarmál, umhverfismál, heilsueflandi samfélag með áherslu á andlegt, félagslegt sem líkamlegt heilbrigði. Að styðja við nýsköpun, allskyns skapandi greinar og vaxandi atvinnuuppbyggingu, ekki síst ferðaþjónustu. Að finna framtíðar lausn á frístunda- og félagsstarfi ungs fólks.

Hrafnhildur Ýr er fædd 2. október í Reykjavík árið 1965. Hún ólst upp í Reykjavík en á m.a. rætur að rekja til Akureyrar. Frá árinu 2009, hefur Hrafnhildur Ýr verið búsett í Ólafsfirði. Hrafnhildur Ýr er gift Vali Þór Hilmarssyni og eiga þau þrjár dætur Selmu Klöru 32 ára, Sunnu Björg 29 ára og Elísabetu Örnu 25 ára, auk þess eiga þau þrjú barnabörn.

Hrafnhildur Ýr er menntuð sem sminka og myndlistarkona. Hún er með B.A. gráðu í sálfræði og er að auki sérfræðingur í atvinnutengdri starfsendurhæfingu með áherslu á sálræn áföll og ofbeldi.

Hrafnhildur Ýr hefur m.a. starfað á leikskólum, sinnt stundakennslu í grunnskóla, starfað sem sminka í leikhúsi og við sjónvarp og sem myndlistarkona, hún hefur  starfað sem ráðgjafi fyrir þolendur ofbeldis og á síðustu árum samhliða námi tekið þátt í Evrópsku þróunarverkefni.

Síðastliðið kjörtímabil hefur Hrafnhildur setið í félagsmálanefnd og fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar.

Hrafnhildur hefur einstakan áhuga á mannlegu atferli og því sem þarf til að skapa gott samfélag þar sem allir ná að blómstra á eigin forsendum og þar sem andleg velferð er höfð að leiðarljósi.