Framboðskynningar í Fjallabyggð – 1. sæti X-I

Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir skipar 1. sæti I-lista, Betri Fjallabyggðar.

„Mér finnst mikilvægt að Fjallabyggð beiti sér fyrir því að markaðssetja sveitarfélagið sem góðan búsetukost fyrir fjölskyldufólk og að einn liður í því ferli verði að bjóða upp á lægstu leikskólagjöldin meðal sveitarfélaga af sambærilegri stærð. Einnig að systkinaafsláttur verði aukinn í 75% fyrir annað barn og frítt eftir það.“

Ingibjörgu finnst Frístundar fyrirkomulagið innan Grunnskóla Fjallabyggðar vera mjög metnaðarfullt og fjölbreytt, eitthvað sem sveitarfélagið gæti eflt enn frekar með því að fjölga valkostum og bæta miðstiginu inn í það fyrirkomulag.

 

Ingibjörg Guðlaug er fædd 26. maí 1980 í Reykjavík. Hún ólst upp í Vestmannaeyjum en á ættir að rekja til Sandgerðis, Eskifjarðar og Breiðdals. Ingibjörg Guðlaug er gift Jóni Garðari Steingrímssyni og eiga þau þrjú börn Steingrím Árna 9 ára, Heiðdísi Freyju 4 ára og Jóhann Snæ 2 ára. Fjölskyldan bjó í Berlin í 6 ár og flutti þaðan til Siglufjarðar sumarið 2015.

Ingibjörg Guðlaug er með B.A. í stjórnmálafræði og M.Sc. í Mannauðsstjórnun. Hún hefur víðtæka starfsreynslu og hefur í gegnum tíðina starfað m.a. sem verkefnastjóri í vefnotendaþjónustu, sem sérfræðingur í nefnd hjá ríkisstjórninni, við viðburðastjórnun og sem mannauðsstjóri.

Síðastliðið ár hefur Ingibjörg Guðlaug verið formaður foreldraráðs Leikskóla Fjallabyggðar. Hún situr einnig i stjórn foreldrafélags Leikskála.

Áhugamál Ingibjargar Guðlaugar eru bókalestur, söngur og útivist, þá sérstaklega skíði. Hún ákvað að læra á skíði eftir hún flutti norður og  þrátt fyrir að svartasta tímabilið í skíðakennslunni hafi verið auðmýkjandi og erfitt fyrir egóið er hún stolt af því hafa slegið til. Skíðin eru frábært fjölskylduáhugamál og stefnir fjölskyldan á að vera mikið saman á skíðum næsta vetur.