Fræðafélag Siglufjarðar býður til fundar og forsetinn mætir!

Fræðafélag Siglufjarðar fagnar því að geta blásið til fundar í fyrsta sinn frá því heimsfaraldur hófst. Næstkomandi sunnudag, 7. nóvember kl. 11:00, stendur félagið fyrir opnum fundi í Bláa húsinu á Siglufirði og verður umfjöllunarefnið að þessu sinni af sögulegum toga.
Endurminningar Hólmfríðar Hjaltason, Tvennir tímar, var fyrst gefin út árið 1949. Hólmfríður fæddist á Siglufirði árið 1870, hún var alþýðukona sem bjó við sáran skort og vinnuþrælkun hjá vandalausum á uppvaxtarárum sínum í Fljótum í Skagafirði.
Kristín Einarsdóttir flytur erindi um stöðu alþýðukvenna og fátækra á Íslandi þeim tíma sem Hólmfríður var uppi.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, er barnabarn Hólmfríðar og mun hann lesa kafla úr bókinni og taka þátt í umræðum.
Fundurinn er öllum opinn og enginn aðgangseyrir. Kaffi og léttar veitingar í boði.
Verið hjartanlega velkomin!