Þrír viðburðir verða á Berjadögum í Ólafsfirði, föstudaginn 17. ágúst. Viðburðir verða á Hornbrekku, í Ólafsfjarðarkirkju og á Kaffi Klöru.

Föstudagur 17. ágúst kl. 15:30 – Dvalarheimilið Hornbrekka

Venju samkvæmt koma listamenn Berjadaga í heimsókn í Dvalarheimilið Hornbrekku og eiga notalega stund með heimilisfólki og gestum. Þar verður flutt úrval af dagskrá Berjadaga. Listamennirnir sem fram koma eru Vera Panitch, Sigursveinn Magnússon, Edda Björk Jónsdóttir og Ave Kara Sillaots.

Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir!

 

Föstudagur 17. ágúst kl. 20 –  Ólafsfjarðarkirkja

Hátíðartónleikar Berjadaga

Kristján Jóhannsson tenór
Bjarni Frímann Bjarnason píanó
Ólöf Sigursveinsdóttir selló
Vera Panitch fiðla
Eyjólfur Eyjólfsson tenór

Föstudagskvöldið 17. ágúst verður hátíð í Ólafsfjarðarkirkju þegar Bjarni Frímann Bjarnason kemur fram ásamt Kristjáni Jóhannssyni tenórsöngvara, Ólöfu Sigursveinsdóttur sellóleikara, Eyjólfi Eyjólfssyni tenórsöngvara og Veru Panitch fiðluleikara á Berjadögum. Hér verður brugðið út af vananum með galakvöldi í kirkjunni og reidd fram hver krásin á fætur annari af gnægtaborði tónbókmenntanna.

Kristján Jóhannsson flytur meðal annars hina frægu aríu „Vesti la giubba“ eftir Leoncavallo og „Gígjuna“ ástælu eftir Sigfús Einarsson. Á tónleikunum hljómar einnig hin fagra „Arpeggione” sónata eftir Schubert í flutningi Ólafar Sigursveinsdóttur og Bjarna Frímanns. Eyjólfur Eyjólfsson tenór syngur ennfremur sjaldheyrð þjóðlög úr ranni Haydns þar sem píanótríó Veru, Ólafar og Bjarna fær að njóta sín. Einn af hápunktum kvöldsins verður vafalaust þegar Bjarni leikur einleik á slaghörpuna í Ólafsfjarðarkirkju.

Miðaverð: 3.500 kr. / Frítt fyrir börn og unglinga 18 ára og yngri
Hátíðarpassi Berjadaga: 7.000 kr. (allir viðburðir)
Miðasala: midi.is og tix.is, og við inngang Ólafsfjarðarkirkju

 

Föstudagur 17. ágúst kl. 22:15 – Kaffi Klara

Það eru allir velkomnir á Kaffi Klöru í berjakokteil og lifandi tónlist eftir hátíðartónleika í Ólafsfjarðarkirkju. Listamenn Berjadaga, Edda Björk Jónsdóttir sópransöngkona, Ave Kara Sillaots harmónikkuleikari og Sigrún Valgerður Gestsdóttir skemmta gestum og gangandi.

Allir velkomnir á hornið!