Forval Vinstri grænna að hefjast í Norðausturkjördæmi

Tólf frambjóðendur eru í boði í forvali Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi sem er að hefjast.  Steingrímur J. Sigfússon, sem  leitt hefur lista VG í kjördæminu frá upphafi gefur ekki kost á sér.

Forval VG í Norðausturkjördæmi hefst klukkan 00.00 á miðnætti og stendur 13. – 15. febrúar. Forvalinu lýkur klukkan 24.00, tólf á miðnætti  mánudaginn 15. febrúar. Forvalið er rafrænt og hægt er að kjósa með rafrænum skilríkjum eða íslykli. Leiðbeiningar eru á vg.is og þar kemst fólk inn á kosninguna.  Kjörstjórn VG í kjördæminu fær úrslitin í hendur og fundar um þau snemma á þriðjudagsmorgun.

Samkvæmt lögum Vinstri grænna skal tryggja að ekki halli á konur á framboðslistum. Þá skal tryggt að ekki séu færri en tvö af hvoru kyni í fimm efstu sætum listans. Kjörstjórn Norðausturkjördæmis stillir svo upp 20 manna framboðslista að teknu tilliti til aldursdreifingar, kyns, búsetu, uppruna, starfs osfrv. þannig að listinn endurspegli samfélagið sem best.  Framboðslisti VG í Norðausturkjördæmi verður lagður fram til samþykktar á kjördæmisþingi fyrir lok mars.