Forstjóri HSN mætti til Fjallabyggðar og ræddi stöðu sjúkraflutninga

Jón Helgi Björnsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands mætti á fund bæjarráðs Fjallabyggðar í vikunni og ræddi um stöðu sjúkraflutninga í Ólafsfirði.  Helgi hafði afboðað sig á fund bæjarráðs í vikunni á undan vegna veðurs.

Framkvæmdastjórn HSN komst að þeirri niðurstöðu síðastliðið vor að leggja af sjúkrabílavakt á Ólafsfirði, og hafa íbúar haft miklar áhyggjur af stöðu mála eftir að sjúkraflutningavaktin hætti í Ólafsfirði.  Mál hafa komið upp þar sem mikil bið hefur verið eftir sjúkrabíl frá Siglufirði eða Dalvík og sjúklingar þurft að bíða óþarflega lengi eftir akstri á sjúkrahúsið.

Á fundinum kom fram í máli Jóns Helga að unnið væri að myndun teymis vettvangsliða og að sú vinna væri komin vel á veg.  Vonast væri til að teymið verði starfhæft um mánaðamótin febrúar / mars.