Forsætisráðherra heimsækir Fjallabyggð í dag

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, mun heimsækja Fjallabyggð síðdegis í dag og hitta þar heimamenn og kynna sér aðstæður á vettvangi.

Í dag fundaði samráðshópur ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu þar sem farið var yfir stöðu mála vegna tjóns af völdum vatnavaxta í Fjallabyggð og á Ströndum. Á fund hópsins komu m.a. Vegamálastjóri, Veðurstofustjóri og framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar var í símasambandi.

Farið var yfir þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til og þá vinnu sem nú stendur yfir og áframhaldið metið.

Ljóst er að umtalsvert tjón hefur orðið í Fjallabyggð og á vegamannvirkjum á Ströndum en veður hefur nú gengið niður á þessum slóðum og ekki er talið að bráð hætta steðji lengur að. Unnið er að frekari gagnaöflun með það að markmiði að unnt verði að bregðast hratt og vel við í samráði við heimamenn. Viðlagatrygging vinnur nú að því að koma á framfæri ítarlegum upplýsingum til íbúa um stöðu mála, bótaskyldu og með hvaða hætti skuli tilkynnt um tjón.

Þetta kemur fram á vef forsætisráðuneytis.

Sigmundur_Örlygur