Nokkrir foreldrar nemenda í eldri deild Grunnskóla Fjallabyggðar vilja að unglingar geti sofið lengur á virkum dögum og að skólinn seinki fyrsta tíma dagsins. Þessi umræða er fyrir nemendur í 6.-10. bekk og er ekki ný á nálinni. Ýmsir skólar á höfuðborgarsvæðinu hafa frestað skólabyrjun til kl. 8:30 eftir þrýsting frá foreldrum og almennri umræðu. Vísað er til rannsókna sem gerðar hafa verið á áhrifum lengri svefns unglinga á líðan og námsárangur.
Skipulagsbreytingar eins og um ræðir þarfnast góðs undirbúnings og samráðs við hagsmunaaðila í Fjallabyggð. Tillaga kom upp hjá Fjallabyggð að skoða hvort þessar hugmyndir geti samrýmst þeim breytingum sem verða á skipulagi skólastarfs Grunnskóla Fjallabyggðar við flutning 5. bekkjar yfir í starfsstöðina við Tjarnarstíg haustið 2024.