Flutningabíll fór útaf veginum í Ólafsfjarðarmúla

Að minnsta kosti fjórir bílar hafa lent utan vegar frá því í gær á Norðurlandi vegna hálku. Hálka er á flestum vegum á Norðurlandi og sumstaðar er flughált.  Í gær fór flutningabíll útaf veginum í Ólafsfjarðarmúla og var ökumaður fluttur á heilsugæsluna á Dalvík til skoðunar en meiðsl hans minniháttar. Í gærkvöld fóru einnig tvær fólksbifreiðar útaf veginum norðan Akureyrar en engin slys urðu á fólki í þeim óhöppum.

Í nótt valt flutningabíll með eftirvagn útaf hringveginum í Hörgárdal á móts við Neðri-Rauðalæk en ökumaður slasaðist ekki. Hins vegar dreifðust vörur um svæði, matvara og timburvörur, og er verið að hefjast handa að skipuleggja hreinsunarstarf í samstarfi við tryggingarfélag bifreiðarinnar og björgunarsveitir sem fengar hafa verið til aðstoðar. Má því búast við einhverjum töfum á umferð á þessu svæði en hjáleiðir eru tvær og ættu því allir að komast leiðar sinnar.

Þetta kemur fram hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra í morgun.