Flug til Sauðárkróks frá 1. desember

Flugfélagið Ernir hefur tilkynnt að félagið hefji áætlunarflug til Sauðárkróks þann 1. desember næstkomandi. Flogið verður mánudaga,þriðjudaga og föstudaga til Alexandersflugvallar á Sauðárkróki. Á þriðjudögum verður morgunflug og síðdegisflug, og verða þetta því alls 4 flug á viku til Sauðárkróks frá Reykjavík. Almennt verð á flugsæti verður 21.900 kr., nettilboð verður 15.900 kr., börn 2-11 ára 13.900 kr. og börn 0-2 ára 3700 kr. Einnig verður boðið upp á fjölskyldutilboð fyrir 3-5 manns, og er ódýrasta tilboðið 72.900 fyrir þrjú sæti fram og til baka og er miðað við börn yngri en 16 ára ferðist með foreldri. Sala á flugi hefst í næstu viku. Nánari upplýsingar um flugáætlun er á heimasíðu Ernis.

Ernir flaug áður til Sauðárkróks frá árunum 2007-2012, en þá hætt Ríkið að niðurgreiða ferðir til Skagafjarðar og félagið hætti flugi á þessari leið, þar sem ekki reyndist nægur fjöldi viðskiptamanna til að halda úti þessari flugleið. Á þessum tíma var flogið fimm sinnum í viku til Sauðárkróks.

Myndir frá facebooksíðu Flugfélagsins Ernis.