Fljótamenn vilja göng til Siglufjarðar

Fljótamenn vilja fá jarðgöng til Siglufjarðar til að koma í veg fyrir að Fljótin fari í eyði. Þeir segja þetta hafi verið rætt á sínum tíma sem framhald af Héðinsfjarðargöngunum sem voru tekin í notkun árið 2010. Fljótamenn og hagsmunaaðilar samþykktu fyrir nokkrum árum að jarðgöng yrðu gerð úr Siglufirði yfir í Fljót en  sá fundur var haldinn Í Ketilási með Vegagerðinni.

Jarðgöng myndu leysa Siglufjarðarveg um Almenninga af hólmi og spara mikinn kostnað vegna snjómoksturs og stöðugs viðhalds á veginum vegna jarðsigs. Eins myndu Siglfirðingar losna við þungaumferð í gegnum bæinn.

Í fréttaskýringu um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir að Fljótamenn vilji fá jarðgöng frá Hraunum í Fljótum og yfir í Skarðsdal í Siglufirði. Þeim hugnist ekki hugmynd Vegagerðarinnar um göng frá Nautadal í Fljótum yfir í Hólsdal í Siglufirði.

Heimild: mbl.is