Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Kormákur/Hvöt mættust í Lengjubikarnum fyrir hádegið í dag og fór leikurinn fram á Sauðárkróksvelli. Heimamenn höfðu áður tapað fyrir Magna og gert jafntefli við Völsung og voru aðeins með 1 stig í riðlinum. KF var með sigur og jafntefli og 4 stig í riðlinum fyrir þennan leik eftir ágætis byrjun.
Kormákur/Hvöt voru í 2. sæti í 3. deildinni á Íslandsmótinu í fyrra og áttu gott mót og leika í sömu deild og KF í sumar.
Heimamenn byrjuðu af krafti í fyrri hálfleik og dæmdi dómarinn víti strax á 2. mínútu leiksins. Kristinn Andrason, 18 ára leikmaður heimamanna skoraði af öryggi. Aðeins 10 mínútum síðar var hann aftur kominn í færi og skoraði gegn markmanni KF og kom Kormáki/Hvöt í 2-0. Glæsileg byrjun hjá þeim, en KF strákarnir ekki alveg komnir í gang.
Á 16. mínútu gera heimamenn sjálfsmark og er staðan því orðin 2-1. KF komast í gang við þetta og skoraði Agnar Óli annað mark liðsins á 30. mínútu og var staðan því orðin 2-2 eftir mikið fjör í fyrri hálfleik.
KF gerði eina skiptingu í hálfleik en Javon markmaður kom útaf fyrir Jón Grétar Guðjónsson.
Akil kom svo útaf á 63. mínútu fyrir Daniel Kristiansen.
Fleiri mörk voru ekki skoruð en heimamenn gerðu einnig nokkrar skiptingar í síðari hálfleik.
Lokatölur 2-2 á Sauðárkróksvelli.
KF er komið með 5 stig í riðlinum eftir þrjá leiki en liðið spilar næst við Magna í Boganum á Akureyri, 17. mars.