Gott gengi Dalvíkur/Reynis heldur áfram í 2. deild karla í knattspyrnu. Liðið hefur nú sigrað fjóra leiki í röð og er í 4. sæti deildarinnar, fjórum stigum frá toppliðinu.
D/R mætti Völsung í 11. umferð Íslandsmótsins og sigraði 3-2.
Þorvaldur Daði Jónsson skoraði strax á 4. mínútu og kom D/R í 1-0. Gestirnir jöfnuðu leikinn á 15. mínútu í 1-1 og þannig var staðan í hálfleik.
Dalvík gerði eina skiptingu í hálfleik. Annað mark D/R kom á 53. mínútu þegar Borja Laguna skoraði og kom þeim yfir. Staðan 2-1.
Tæpum tíu mínútum síðar skoraði D/R sjálfsmark og var staðan því orðin 2-2.
Kári Gautason skoraði þriðja mark D/R á 69. mínútu og reyndist það sigurmark leiksins. Lokatölur 3-2 á Dalvíkurvelli.
Næsti leikur D/R er gegn KFG á útivelli, laugardaginn 15. júlí.