Fjölskyldustemning á Síldarævintýrinu á Siglufirði

Í dag hafa verið fjölmargir skemmtilegir viðburðir á Síldarævintýrinu á Siglufirði.  Töluverð þoka hefur verið yfir firðinum í dag og hitinn verið um 8 stig samkvæmt Veðurstofunni, en hitamælar á Siglufirði hafa sýnt um 12 stig í dag.

Fjölmargir húsbílar og hjólhýsi eru nú á tjaldsvæðum á Siglufirði og öllum lausum svæðum.  Talsvert er einnig af fjölskyldufólki á hátíðinni enda margir viðburðir fyrir yngri kynslóðina. Í dag var boðið upp á hestaferð á gamla Malarvellinum og kom fjöldi manns þangað með börnin. Ófærðargangan var einnig vinsæl og fjölmennt var við hoppukastalana í miðbænum. Hægt var að gera góð kaup á bókamarkaði Bókasafnsins og einnig hægt að fá kynningu á Héraðsskjalasafni Fjallabyggðar sem er í Ráðhúsi Fjallabyggðar.

Sögustund var fyrir yngri kynslóðina í Ljóðasetrinu og var þétt setið þar þegar Þórarinn Hannesson las fyrir börnin.

Síldarminjasafnið var með söltunarsýningu og síldargengið fór rúnt um bæinn. Einnig var boðið upp á veglegt síldarhlaðborð fyrir utan safnið og á leið fjölda fólks þangað.

Mikið var um að vera fyrir utan Segul 67 bruggverksmiðjuna, en þar mættu fornbílar, markaður var með prjónuðum peysum og ýmsar vörur voru til sölu. Bjórleikarnir voru haldnir í fyrsta skiptið hjá Segli 67 og var þrautabraut á götunni fyrir utan verksmiðjuna sem hafði verið lokað. Þá var grillað á svæðinu og lifandi tónlist.

Frímúrarar á Siglufirði voru með opið hús og buðu upp á kynningu á félaginu og húsakynnum þess í tilefni af 100 ára Frímúrarastarfi á Íslandi.