Fjölmiðlafyrirtækið N4 ehf. hefur óskað eftir gjaldþrotaskiptum eftir að tilraunir til að tryggja framtíð fyrirtækisins báru ekki árangur.

N4 hefur framleitt íslenskt efni undanfarin 15 ár. Fólkið í landinu hefur verið í brennidepli í allri framleiðslu efnis. N4 hefur varðveitt sögu þjóðarinnar. Þessum kafla í sögu fjölmiðla á Íslandi er lokið að sinni.

Rekstur fjölmiðils eins og N4 hefur byggt á óeigingjörnu starfi starfsfólks í sífellt erfiðara rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi.

Stjórn fyrirtækisins harmar þessa niðurstöðu, ekki síst í ljósi þess að N4 hefur verið eini fjölmiðillinn sem framleitt hefur íslenskt sjónvarpsefni utan höfuðborgarsvæðisins.