Tæplega 70 manns mættu á íbúafund í Hrísey í dag. Á fundinum var kynnt skýrsla með niðurstöðum frá málþingi sem haldið var í september sl. Það er hópur fólks sem kallar sig áhugahóp um framtíð Hríseyjar og hefur verið starfandi frá miðjum ágúst 2013 sem stóð fyrir því. Málþingið var með svokölluðu þjóðfundarsniði þar sem unnið var í hópum og niðurstöður kynntar í restina, síðan þá hefur hópurinn verið að vinna úr niðurstöðunum og var afraksturinn kynntur í dag.

Á fundinum var einnig kynning frá nemendum Hríseyjarskóla en skólinn hefur í vetur tekið þátt í verkefni Landsbyggðarvina, yfirskrift verkefnisins var: Sköpunargleði – Heimabyggðin mín, Nýsköpun, Heilbrigði og Forvarnir.

Nemendur í eldri deild (8., 9. og 10. bekk) tóku þátt í verkefninu og var það unnið í samfélagsgreinum. Vinnan á haustönninni var einstaklingsvinna þar sem nemendur skrifuðu ritgerðir. Vinnan fólst í því að ræða um kosti byggðarlagsins en koma jafnframt með tillögur til úrbóta á þvi sem betur mætti fara. Fjórar ritgerðir voru sendar inn í ritgerðarsamkeppni og lentu riterðirnar  saman í verðlaunasæti.  Síðan hafa nemendurnir unnið áfram að hugmyndum sínum og eru að útfæra þær með von um að hægt verði að framkvæma þessar hugmyndir.

Kynning var frá Hríðsiðn sem framleiðir hrífur, amboð og fleira,hefur undanfarið verið að koma sér á markað með þurrkaðri hvönn.

Bæjarstjóri Eiríkur Björn Björgvinsson ávarpaði fundinn og kynnti stöðu mála sem snúa að bænum í Hrísey.  Sævar Freyr Sigurðsson frá Saga Travel tók til máls og ræddi um tækifæri í ferðaþjónustu í Hrísey.

Síðan var fólki gefinn kostur á að ganga um og kynna sér nánar niðurstöður frá málþinginu hjá áhugahópnum. Að lokum var boðið upp á súpu og brauð.

Hægt er að lesa skýrsluna hér.