Fjölmennasti Fiskidagurinn mikli frá upphafi

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er áætlað að 33.000 manns hafi heimsótt Dalvíkurbyggð á Fiskidaginn mikla um síðustu helgi, þá er ótalinn allur sá fjöldi sem var kominn fyrir þann tíma. Er þetta fjölmennasta Fiskidagshátíðin til þessa. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Dalvíkurbyggð.

Föstudaginn 5. ágúst var dagskrá í kirkjubrekkunni sem er nokkurskonar setningarathöfn fyrir Fiskidaginn mikla. Vináttukeðjan er hlý og notaleg stund þar sem að staldrað er við og hugað að vináttunni og náungakærleikanum. Þar er tónlistarflutningur og vinátturæðuna flutti forseti Íslands Guðni Th. Jóhanesson með eftirminnilegum hætti.

Á föstudagskvöldinu buðu um 120 fjölskyldur í Dalvíkurbyggð uppá fiskisúpu og vinalegheit. Hver sá sem bauð uppá súpu var með sína uppskrift. Einstaklega gott og ljúft kvöld í blíðskaparveðri. Gaman var að sjá forsetahjónin rölta um allan bæ og heimsækja allflesta súpustaði og njóta samvista við heimamenn og gesti.

Laugardaginn 6. ágúst milli kl 11.00 og 17.00 var Fiskidagurinn mikli haldinn hátíðlegur í sextánda sinn á hafnarsvæðinu á Dalvík og einn eitt skiptið sól og blíðu. Yfir 120.000 matarskammtar runnu ljúflega ofan í gesti Fiskidagsins mikla. Matseðillinn var sá fjölbreyttasti frá upphafi. Mjög fjölbreytt dagskrá var á sviði og hátíðarsvæðinu allan daginn. Um 150 manns komu fram í frábærri og vel heppnaðri dagskrá á sviðinu og á svæðinu.

Hátíðinni lauk síðan með Fiskidagstónleikum og flugeldasýningu af stærri gerðinni í boði Samherja. Boðið var uppá einstakan tónlistarviðburð. Í farabroddi voru heimamennirnir Friðrik Ómar, Matti Matt, Eyþór Ingi. Meðal annara sem komu fram voru: Helena Eyjólfsdóttir, Salka Sól , Jóhanna Guðrún, KK, Laddi, Magni Ásgeirsson, Gissur Páll, Hulda Björk Garðarsdóttir, Regína Ósk, Selma Björnsdóttir, Dagur Sigurðsson, BMX brós, Karlakór Dalvíkur, Salka kvennakór frá Dalvík. Flugeldasýning Björgunarsveitarinnar á Dalvík setti lokapunktinn á einstaka fjölskylduhátíð.

13891896_942774075850481_4950490442155908231_n 13886912_942774949183727_3600129222662237389_n 13912889_942774349183787_769896244005481577_n 13900302_942773869183835_7231962416253493342_n