Á síðustu árum hefur verið hröð fjölgun fólks af erlendum uppruna á Íslandi og að sama skapi hefur fjölgað í Verkmenntaskólanum á Akureyri nemendum með erlent ríkisfang. Á haustönn í VMA eru þeir um sjötíu eða rúmlega 6% af heildarfjölda nemenda í dagskóla.

Eftir því sem næst verður komist eru nemendur í VMA á haustönn af 24 þjóðernum. Langflestir koma frá Evrópu en einnig eru nemendur frá Mið-Ameríku, Suður-Ameríku, Asíu og Afríku. Í takti við þann fjölda Pólverja sem býr á Íslandi eru nemendur sem hafa pólskt ríkisfang lang fjölmennastir nemenda í VMA af erlendum uppruna eða rösklega 40%.