Fjölbreytt dagskrá á Ljóðasetrinu í vikunni

Formleg sumaropnun Ljóðasetursins á Siglufirði var í gær. Setrið verður opið alla daga frá kl. 14.00-17.30 fram í miðjan ágúst.  Boðið upp á lifandi viðburði á hverjum degi kl. 16.00 og er óhætt að segja að dagskráin fyrstu vikuna sé fjölbreytt.

Ljóðskáldið Sigurður Pálsson las úr verkum sínum og spjallaði við gesti setursins í gær.

Í dag mun bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2013, Þórarinn Hannesson, lesa úr ljóðabókum sínum.

Dagskráin næstu daga:

  •  Á fimmtudag verður lesið og sungið úr verkum Stefáns frá Hvítadal.
  •  Á föstudag mun ljóðskáldið og tónlistarmaðurinn Aðalsteinn Ásberg heiðra okkur með nærveru sinnni og lesa úr verkum sínum.
  •  Á laugardag mun Þórarinn Hannesson kveða eigin kvæðalög og annarra í tilefni Þjóðlagahátíðar
  •  Á sunnudaginn mun svo leikarinn Elfar Logi Hannesson flytja dagskrá sem hann kallar Þulur og glímuskjálfti en þar mun hann fjalla um Theodóru Thoroddsen og barnabarn hennar Dag Sigurðarson og lesa úr verkum þeirra. Logi mun hefja leik kl. 17.00 eftir að Bjarnatorg hefur verið vígt við Siglufjarðarkirkju.

 

Það eru Sparisjóður Siglufjarðar og Menningarráð Eyþings sem styrkja lifandi viðburði sumarsins á Ljóðasetrinu.