Fjarðabyggð setti þrjú mörk á Ólafsfjarðarvelli

Gestirnir úr Fjarðabyggð heimsóttu Fjallabyggð í dag og spiluðu við heimamenn í Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar í 2. deild karla í knattspyrnu. Leikið var á Ólafsfjarðarvelli og hófst leikurinn kl. 14. Í marki heimamanna var Þorvaldur Þorsteinsson sem spilaði sinn fyrsta leik fyrir KF í 5 ár, en hann er 35 ára gamall og lék á sínum tíma með KS/Leiftri og Leiftri/Dalvík og hefur leikið 76 leiki fyrir meistaraflokk. Halldór Ingar Guðmundsson markmaður var á bekknum í dag, en hann hefur spilað fyrstu 7 deildarleikina í ár.

Eftir markalausan fyrri hálfleik þá komu þrjú mörk gestanna á 10 mínútum seint í síðari hálfleik.  Brynjar Jónsson gerði tvö mörk með nokkra mínútna millibili fyrir Fjarðabyggð, fyrsta á 73. mín, og annað á 77. mínútu. Hákon Sófusson gerði svo út um leikinn á 83. mínútu með síðasta marki leiksins. 166 manns voru á vellinum í dag.

Fjarðabyggð er búið að skora 18 stig í 8 leikjum og er á toppi deildarinnar, en KF hefur skorað 7 mörk í 8 leikjum og er í 9. sæti deildarinnar.