Fjallabyggð hefur úthlutað styrkjum ársins til félagasamtaka, stofnana og einstaklinga vegna veittrar þjónustu sem fellur að hlutverki sveitarfélagsins eða telst á annan hátt í samræmi við stefnumörkun, áherslur, forgangsröðun og fjárhagsáætlun bæjarstjórnar.
Úthlutaðir fjárstyrkir fyrir árið 2022 nema alls kr. 52.037.200.
Síldarminjasafnið fær 5,5 milljónir króna í rekstrar styrk auk 500.000 kr. styrk vegna uppbyggingar á Salthúsinu.
Ýmsar hátíðir fá einnig styrki, eins og Frjó afmælishátíð, Berjadagar í Ólafsfirði, Þjóðlagahátíðin, Ljóðahátíðin Haustglæður, Sjómannadagshátíðin og fleiri sem fá afnot af búnaði og öðru í eigu Fjallabyggðar. Athygli vekur að ekki var á lista styrkur vegna Síldarævintýris eða Trilludaga sem Fjallabyggð hefur staðið fyrir.
Björgunarsveitirnar í Fjallabyggð fá 5,2 milljónir í rekstrarstyrki.
Að auki styrkir Fjallabyggð rekstur Skíðasvæðisins í Skarðsdal á Siglufirði um 29,6 milljónir.
Skíðasvæðið í Tindaöxl í Ólafsfirði fær 5,7 milljónir og knattspyrnuvellir í Fjallabyggð hljóta 6,6 milljónir.
Nánari úthlutanir má sjá á vef Fjallabyggðar.