Fjallabyggð styrkir Þjóðlagasetrið vegna rekstrarvanda

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að styrkja Þjóðlagasetrið á Siglufirði um 414.000 kr.sem samsvarar launakostnaði sveitarfélagsins við eitt sumarátaksstarf námsmanns í tvo mánuði. Styrkurinn kemur til vegna rekstarvanda félagsins vegna Covid19, minni styrkjum og fækkunnar erlendra ferðamanna sem voru 60% gesta á árinu 2019.

Þjóðlagaseturs sr. Bjarna Þorsteinssonar hafði áður ákveðið að Þjóðlagahátíðin á Siglufirði sem halda átti dagana 1. – 5. júlí, yrði ekki haldin í ár vegna Covid19. Í stað þess yrðu haldnir fernir tónleikar í Siglufjarðarkirkju sumarið 2020. Sótt hefur verið um styrk til Tónlistarsjóðs vegna þeirra.

Fjallabyggð samþykkti í vor að styrkja Þjóðlagahátíð 2020 um 800.000 kr. og kr. 800.000 til reksturs Þjóðlagaseturs. Stjórn setursins óskaði eftir því að bæjarráð Fjallabyggðar veitti umræddan styrk til Þjóðlagahátíðar 2020, til Þjóðlagasetursins vegna rekstrarvanda safnsins árið 2020. Þessari styrkveitingu var hafnað af Fjallabyggð og áréttaði að styrkir yrðu ekki greiddir út vegna hátíða eða viðburða sem ekki fara fram á árinu 2020.