Bæjarráð Fjallabyggðar hefur tekið vel í erindi Knattspyrnufélags Fjallabyggðar, sem hefur óskað eftir að sveitarfélagið Fjallabyggð taki þátt í kostnaði KF sem til fellur vegna æfinga meistaraflokks liðsins utan sveitarfélagsins.
KF hefur ekki aðstöðu eða upphitað gervigras til æfinga utan sumartíma og hefur þurft að leigja aðstöðu hjá Knattspyrnudeild Dalvíkur á Dalvíkurvelli og einnig leigt tíma í Íþróttahúsinu Boganum á Akureyri. Allt þetta kostar sitt og hefur gert það undanfarin ár og verið þungur rekstrarliður hjá félaginu og skapað erfiðar aðstæður fyrir leikmenn liðsins í meistaraflokki karla.
Þessi stöðugu ferðalög yfir æfingatímabilið henta auðvitað ekki öllum leikmönnum liðsins og hefur félagið alveg misst efnilega og uppalda leikmenn í önnur félög vegna aðstöðuleysis í heimabyggðinni.
Það var bæjarstjóri Fjallabyggðar og deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála sem fóru yfir erindi félagsins, sem virðast nú vera komin í farveg.
En ljóst er að ekkert bólar á gervigrasvelli í sveitarfélaginu eins og staðan er núna.
Dalvíkurvöllur er vinsæll í útleigu fyrir knattspyrnufélögin á Norðurlandi. Upphitaður völlur og með lýsingu.