Fjallabyggð leggur til 4 milljónir til skógræktar

Á hátíðarfundi bæjarstjórnar Fjallabyggðar sem haldinn er í tilefni af 100 ára kaupstaðarafmæli Siglufjarðar, þann 20. maí 2018, samþykkti bæjarstjórn að veita 4 milljónum króna til skógræktar í sveitarfélaginu.
Undanfarin ár hafa bæjaryfirvöld lagt áherslu á umhverfismál og með samþykktinni vill bæjarstjórn gera enn betur í fegrun umhverfisins. Unnið er að innleiðingu verkefnisins Heilsueflandi samfélag í Fjallabyggð en með því er lögð áhersla á að bæta heilsu og líkamlega, andlega og félagslega líðan íbúa, m.a. með því að hvetja til aukinnar hreyfingar og útivistar.

Í skógræktinni í Skarðsdal hefur Skógræktarfélag Siglufjarðar unnið ötult starf í tæp 80 ár og er ein af helstu náttúruperlum í Fjallabyggð, sem margir nýta sér til útivistar. Í samstarfi við Skógræktarfélagið vill bæjarstjórn stuðla að enn frekari uppbyggingu á svæðinu með grisjun, sáningu og gerð göngustíga.

Skeggjabrekkudalur í Ólafsfirði er vinsæll útivistarstaður. Í mynni dalsins er golfvöllur og á veturna er dalurinn mikið nýttur af gönguskíðafólki og vélsleðamönnum. Í samstarfi við Golfklúbb Fjallabyggðar og fagaðila verða gróðursett tré innan golfvallarsvæðisins.

Heimild: fjallabyggd.is