Fjallabyggð krefur húseigendur úrbóta á illa förnum eignum

Fjöldi húsa á Siglufirði er skemmdur eftir aftakaveður sem þar gekk yfir um síðustu helgi og byrjun vikunnar. Mikil hætta skapaðist þegar járnplötur,brak og lausamunir fuku um bæinn og verða eigendur þeirra húsa, sem hve mest hætta stafaði af, krafðir úrbóta.

Þegar ekið er um bæinn á Siglufirði sést vel að þar hefur mikið gengið á. Þök eru sködduð, rúður hafa brotnað og hér hefur múrhúðin hreinlega flagnað af húsvegg. Vindmælir björgunarsveitarinnar Stráka sýndi um 50 metra á sekúndu í verstu hviðunum og sveitinni bárust tæplega 40 aðstoðarbeiðnir um sl. helgi og í byrjun vikunnar.

„Þetta er mjög óvenjulegt að þetta sé svona mikið enda er þetta búið að standa alveg í tvo til þrjá sólarhringa,“ segir Magnús Tómasson, formaður björgunarsveitarinnar Stráka í samtali við Rúv.is.

Bróðurparturinn af þessum útköllum var frá aðfaranótt sunnudags og fram eftir degi, en fimmtán manns voru þá samtímis í aðgerðum um allan bæ. „Þetta er alveg frá lausum tunnum fjúkandi um göturnar og í húsin og alveg upp í heilu þökin sem eru að rifna af.“

Gömul skemma olli hve mestum vandræðum en af húsinu fauk járn og allskyns lauslegt. Björgunarsveitarmenn hættu að lokum aðgerðum við húsið og lokuðu svæðinu umhverfis það. „Við bara þorðum ekki að senda mannsskap upp á það þak í þá hættu og þess vegna lokuðum við neðri partinum af Aðalgötunni til að minnka hættuna fyrir vegfarendur,“ segir Magnús.

Í ljósi reynslunnar verður eigendum tveggja húsa gert að tryggja að þau valdi ekki frekari hættu eða skemmdum, en af þessum húsum stafaði mikil hætta. „Ég er búinn að setja mig í samband við einn og hann brást við og ætlar að kalla til verktaka til að tryggja að ekki verði meira tjón. Hinn eigandinn var búinn að setja sig í samband við verktaka,“ segir Ármann Viðar Sigurðsson, deildarstjóri tæknideildar Fjallabyggðar í samtali við Rúv.is. Hann reiknar með að fólk fari víða að huga að endurbótum þó ekki verði þrýst á fleiri húseigendur. „Hús sem að ekki eru kannski í neinni niðurníðslu, við erum ekki að senda bréf til þeirra.“

Heimild: ruv.is