Fjallabyggð er í hópi þeirra 8 sveitarfélaga á landinu sem skulda minnst. Því sér Fjallabyggð fram á meira bolmagn til uppbyggingar, framkvæmda og viðhalds á næstu árum.

Þjónustugjöld Fjallabyggðar munu almennt hækka um 6% á árinu 2024. Er það tilkomið vegna óvissu með verðbólgu.  Útsvarsprósentan helst óbreytt á milli ára þ.e. 14,7%.

Stærsti útgjaldaliður Fjallabyggðar er fólgin í launum. Laun og launatengd gjöld Fjallabyggðar munu nema 2.420 m.kr. á árinu 2024 eða 55,8% af rekstrartekjum. Launakostnaður eykst þar með um 273 milljónir á milli ára miðað við útkomuspá 2023.

Í fjárhagsáætlun Fjallabyggðar fyrir árið 2024 er gert ráð fyrir stórauknu fé, eða um 190 milljónum, til viðhalds mannvirkja enda er mikil uppsöfnuð viðhaldsþörf mannvirkja í bæjarfélaginu.

Hjá Fjallabyggð starfa nú 251 einstaklingar í 186 stöðugildum.