Fjallabyggð búið að tryggja talmeinaþjónustu fyrir börn

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að ganga til samninga við talmeinafræðingana Eyrúnu Svövu Ingvadóttur og Sonju Magnúsdóttur um talmeinaþjónustu fyrir leik- og grunnskólanemendur í Fjallabyggð. Samningurinn gildir frá 1. september 2017 til og með 31. ágúst 2019.  Þjónustan fer fram inn í skólunum og er foreldrum að kostnaðarlausu.

Héðinsfjörður.is hafði samband við Ríkey Sigurbjörnsdóttur, deildarstjóra hjá Fjallabyggð og spurði nánar út í hvaða þjónusta yrði í boði í hjá talmeinafræðingum í Fjallabyggð.

“Talmeinaþjónusta hefur verið í boði í leikskóla og grunnskóla Fjallabyggðar í mörg ár. Talmeinafræðingar frá Akureyri koma nokkrum sinnum yfir veturinn og vinna með nemendur sem eiga í erfiðleikum með málþroska eða framburð á einhvern hátt, gera málþroskagreiningar, framburðargreiningar og beita talþjálfun. Í framhaldinu fær fagfólk skólanna og jafnvel foreldrar ráðgjöf um hvernig skuli vinna áfram með barnið.” – Sagði Ríkey í samtali við Héðinsfjörð.is.

Þær aðferðir sem talkennarar og talmeinafræðingar beita eru mismunandi og byggjast á nákvæmri greiningu. Markmið meðferðar getur verið að:

 • auka málskilning
 • auka máltjáningu
 • stuðla að bættum boðskiptum
 • styrkja talfæri
 • leiðrétta framburð
 • lagfæra tunguþrýsting
 • auka málfærni
 • draga úr raddvandamálum
 • draga úr stami
 • auka málvitund
 • draga úr þvoglumæli
 • draga úr lestrarörðugleikum
 • styrkja ritmál
 • styrkja hljóðkerfisvitund
 • vinna með óhefðbundnar tjáskiptaleiðir

 

Áhugaverðar netslóðir:

Félag Talmeinafræðinga á Íslandi.

Talmeinafræði Háskóla Íslands

Talmeinafræðingar doktor.is