Ólafsvegur 4 er 90 ára gamalt einbýlishús í Ólafsfirði sem hefur verið í eigu sveitarfélagsins Fjallabyggðar en hefur nú verið auglýst til sölu á 36,5 milljónir. Húsið sem er byggt árið 1933 er á tveimur hæðum auk bílskúrs sem var byggður árið 1974. Í áratugi var húsnæðið nýtt sem bæjarskrifstofur Ólafsfjarðar fyrir sameiningu sveitarfélaganna en þar á undan bjó læknir sveitarfélagsins í húsinu auk þess sem aðstaða til lækninga og móttöku var.
Töluverð hreyfing hefur verið á fasteignum í Ólafsfirði undanfarna mánuði, en yngra fólk er að stækka við sig og eldra fólk að reyna losa sig við stærra húsnæði.
Bókasafnið og skrifstofur Fjallabyggðar í Ólafsfirði munu flytjast í Bylgjubyggð 2, þar sem verður einnig hús Eldri borgara.
Húsið er vel staðsett og næg bílastæði innan lóðar.
Nánari upplýsingar má sjá á fasteignavef mbl.is.