Stjórn Fiskidagsins mikla á Dalvík hefur ákveðið að blása til fiskihátíðar á nýjan leik í ágúst á næsta ári, 2023, en festa hátíðahöldum í ár í þriðja sinn. Allt er þegar þrennt er í þessum efnum sem í öðrum!

Þegar COVID-faraldurinn brast á snemma árs 2020 tilkynntum við um frestun Fiskidagsins mikla 15. apríl það ár og birtum tilkynningu um aðra frestun 15. apríl 2021. Fiskidagurinn var fyrsta fjöldasamkoma landsmanna sem slegið var á frest 2020. Sú ákvörðun sýndi sig vera hárrétt og borið var lof á stjórn Fiskidagsins mikla fyrir að taka af skarið, meðal annars af fulltrúum sóttvarnayfirvalda landsins. Frestunin 2021 sýndi sig vera hárrétt líka enda COVID enn grasserandi í landinu og er reyndar enn þótt takmörkunum hafi verið aflétt.

Hvers vegna frestun líka í ár? Svarið er samandregin niðurstaða eftir mikil fundahöld undanfarnar vikur, samtöl við fagfólk og allt okkar góða fólk. Samdóma álit er alveg skýrt:

 

  • Afar skynsamlegt er að láta kyrrt liggja áfram og stofna ekki til viðburðar af slíkri stærðargráðu sem að hátíðin okkar er þegar ástandið er svo viðkvæmt sem raun ber vitni.

Óvissan er enn til staðar, margir vilja gjarnan mæta í ár en eru enn ekki tilbúnir að vera í fjölmenni af óttast við að smitast, jafnvel í annað eða þriðja sinn. Samfélagið hefur einfaldlega ekki jafnað sig.

Munum að Fiskidagurinn mikli er og verður matarhátíð þar sem maður er manns gaman, grímulaust!

Fiskidagurinn mikli var fyrst hátíðlegur haldinn á árinu 2001. Gert var ráð fyrir því að fagna 20 ára afmæli samkomunnar í ágúst 2020 en það fór sem fór.

Við skuldum landsmönnum tvítugsafmælisveislu en stefnum nú ótrauð að því að gera upp þá skuld í ágúst 2023. Þá mætum við sterk til leiks sem fyrri daginn.

Verið velkomin í Dalvíkurbyggð á 20 ára afmæli Fiskidagsins mikla 2023!

 

Með kærleikskveðju,

stjórn Fiskidagsins mikla í Dalvíkurbyggð.

 

Texti: Aðsend tilkynning.