Fiskidagurinn mikli fjórtan ára

Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli er nú haldinn í fjórtánda sinn á Dalvík. Frá upphafi hefur markmið hátíðarinnar verið að fólk komi saman, hafi gaman og borði fisk. Ennfremur er allur matur og skemmtan á hátíðarsvæðinu ókeypis.

Kl. 18.00 föstudaginn 8. ágúst verður Fiskidagurinn mikli settur með u.þ.b. klukkustundar langri dagskrá í kirkjubrekkunni sem kölluð er Vináttukeðja. Vináttukeðjuræðuna 2014 flytur séra Hildur Eir Bolladóttir. Meðal þeirra sem fram koma eru hinir einu sönnu Greifar, Jónína Björt Gunnarsdóttir, Erna Hrönn, Friðrik Ómar, Gyða Jóhannesdóttir, Hljómsveitin Thunder, Karlakór Dalvíkur og leikskólabörn úr Dalvíkurbyggð. Knúskorti og vináttuböndum verður dreift og flugeldum skotið upp. Í tilefni af því að Fiskisúpukvöldið er 10 ára í ár verður dregið úr afmælisdögum allra viðstaddra og aðalvinningurinn er ferð til í Færeyja. Meðal annara vinninga er passi til að skjótast á bakvið stóra sviðið á laugardagskvöldinu og fá mynd með stórstjörnunum. Í lokin verður risaknús til þess að leggja vináttu og náungakærleikslínur fyrir helgina. Súpukvöldið hefst síðan kl 20.15 og stendur til 22.15.

Fiskisúpukvöldið er 10 ára í ár. Þetta er viðburður sem hefur svo sannarlega slegið í gegn og samtals hafa ríflega 190.000 gestir ritað nöfn sín í gestabækur á súpukvöldi. Í ár eru um 120 fjölskyldur sem taka þátt og eru margar þeirra í samvinnu við aðrar fjölskyldur úr sömu götu. Súpukvöldið hefst að vanda kl. 20:15 og þar bjóða íbúar gestum og gangandi heim í fiskisúpu og að njóta einlægrar gestrisni.

Á sjálfum Fiskideginum mikla, laugardeginum 10. ágúst milli kl. 11:00 og 17:00 verður að vanda margt í boði. Stundvíslega kl. 11:00, opna allar matarstöðvar og dagskráin hefst.
Skólaskipið Sæbjörg verður sérstakur heiðursgestur af hafi og verður til sýnis við bryggjuna.

Heimild: dalvik.is