Ljósmynd: Bjarni Eiríksson.

Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli er nú haldinn í 17. sinn. Frá upphafi hefur markmið hátíðarinnar verið að fólk komi saman, hafi gaman og borði fisk. Ennfremur er allur matur og skemmtan á hátíðarsvæðinu ókeypis.

Vináttukeðjan 2017 – Setning fjölskylduhátíðarinnar “Fiskidagurinn mikli”

Vináttukeðjan er um klst. löng dagskrá.
Framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla Júlíus Júlíusson setur hátíðina. Soffía Vagnsdóttir fræðslustjóri Akureyrarbæjar og stofnandi ástarvikunnar í Bolungarvík flytur vináttukeðjuræðuna 2017. Leikskólabörnin syngja, Guðmundur Kristjánsson og Selma dóttir hans taka lagið og Örn og Valdimar heilla gesti Vináttukeðjunnar. Friðrik Ómar, Gyða Jóhannesdóttir og karlaraddir ljúka dagskránni að venju með “Mömmu” laginu. Börnin fá vináttufána og knúskorti og vináttuböndum verður dreift, flugeldum skotið upp. Að venju verður risaknús til þess að leggja vináttu og náungakærleikslínur fyrir helgina.

Fiskisúpukvöldið haldið í þrettánda sinn
Fiskisúpukvöldið er nú haldið í þréttánda sinn, þetta er viðburður sem hefur svo sannarlega slegið í gegn. Heimamenn bjóða gestum og gangandi uppá mismunandi fiskisúpur í heimahúsum, görðum eða á götum úti. Súpukvöldið hefst að vanda kl. 20:15.

Fiskidagurinn mikli sjálfur
Á sjálfum Fiskideginum mikla, laugardeginum 12. ágúst milli kl. 11:00 og 17:00 verður að vanda margt í boði. Stundvíslega kl. 11:00 opna allar matarstöðvar og dagskráin hefst. Björgúlfur EA 312 nýr skuttogari Samherja verður til sýnis við hafnargarðinn á hátíðarsvæðinu.

Fjölbreyttur matseðill
Matseðill Fiskidagsins er afar fjölbreyttur að vanda. Þar má að sjáfsögðu finna gamla og góða rétti þar má nefna ljúffenga síld og rúgbrauð, fersku rækjurnar og fiskborgarana. Salka Fiskmiðlun býður upp á harðfisk og smjör. Tandoori bleikja með naan brauði frá Indian Curry Hut á Akureyri. Akureyri FISH og Reykjavík FISH koma með Fish and chips. Rækjusalat  í boði Dögunar. Filsur sem eru fiskipylsur. Nýjar sósur og kryddblöndur á  fisknum á grillunum, bleikjunni, þorsknum og saltfisknum. NINGS fjölskyldan mætir með risasúpupottinn þar sem að boðið verður uppá austurlenska rækju og bleikjusúpu. Grímur kokkur kemur frá Eyjum með uppáhald allra plokkfiskinn góða og fiskistangir. Aðstoðarkokkur Fiskidagsins mikla Addi Yellow eða Arnþór Sigurðsson stýrir sasimistöðinni þar sem að lax og hrefna verða í boði. Nú verður í fyrsta skipti lax í boði og kemur hann frá Arnarlaxi sem er nýr og öflugur aðili í hópi aðalstyrktaraðila Fiskidagsins mikla. Kaffibrennslan býður uppá besta kaffið, svartan Rúbín, Íspinnarnir frá Samhentum Umbúðamiðlun klikka aldrei og Samherji býður uppá sælgæti.

Barnadagskrá
Að venju er vel hugsað um börnin já eða fjölskylduna alla á fjölskylduhátíðinni Fiskideginum mikla. Meðal dagskrárliða sem eru sérstaklega hugsaðir fyrir börn eru: Brúðubíllinn í boði KEA. Íþróttaálfurinn, Halla hrekkjusvín, Siggi sæti og Solla stirða og andlitsmálun í boði Samherja. Leikhópurinn Lotta með Ljóta andarungann, teikniveröld, uppblásinn fótboltavöllur í boði Vífilfells, veiði á bryggjunni og fleira.

Samherji og Fiskidagurinn bjóða börnum að skapa nýja fiskiveröld.
Náttúran hefur skapað marga fiskana og í hafinu leynast þúsundir tegunda. Samherji veiðir t.d. um 50 þeirra. Á Fiskidaginn mikla milli kl 11.00 og 17.00 í salthúsinu verður börnum boðið að skapa og nota hugmyndaflugið til að búa til enn fleiri fiska. Börn á öllum aldri eru hvött til að teikna fisk, gefa honum nafn og hengja hann upp og allir sem skila mynd fá glaðning.

Ný fiskasýning og nú innandyra í Allahúsinu
Allt frá árinu 2002 hefur verið sett upp áhugaverð fiskasýning á Fiskideginum mikla, sýning þar sem að sýndir hafa verið á þriðja hundrað tegundir af ferskum fiskum sem glatt hafa þúsundir manns.  Sýningin hefur ávallt verið utandyra. Í ár verður sýningin færð inn í hús og sett upp á nýjan máta með textum, lýsingum og á skjám. Það er að venju Skarphéðinn Ásbjörnsson sem heldur utan um sýninguna og hefur hann lagt mikla vinnu í þetta áhugaverða verkefni. Sýningin í ár er eitthvað sem að enginn ætti að missa af. Að venju verður hákarlinn af sýningunni skorinn kl. 15.00 og nú á nýjum stað, það er Gunnar Reimarsson sem sýnir listir sínar við hákarlaskurðinn. 

Myndataka í búrhvalskjalfti
Í ár verður til sýnis efri skoltur úr Búrhval og verður hann settur þannig upp að gestir geta sest í hann eða stillt sér upp við hann til myndatöku. Skolturinn kom í botntroll hjá Björgvin EA 311  togara Samherja sumarið 2014. Skipið var á veiðum í Reykjafjarðarál á um 300 m dýpi. 66°52N-20°32V. Skipið var á þorskveiðum  þegar beinið kom í trollið. 

Ný og öflugur aðili í hóp aðalstyrktaraðila Fiskidagsins mikla
Arnarlax bætist nú í öflugan hóp eftirtaldra aðalstyrktaraðila Fiskidagsins mikla. Samherji hf. Samskip, Sæplast, Vífilfell, Marel, Dalvíkurbyggð, Landsbankinn,Valeska-Fiskmarkaður Norðurlands, KEA, Kristjánsbakarí, Ásbjörn Ólafsson, Salka Fiskmiðlun og vinir frá Nígeríu, og Marúlfur. Arnarlax verður með aðstöðu á hafnargarðinum og í sasimibásnum í ár verður boðið uppá lax frá þeim.

Kvöldtónleikar og flugeldasýning í boði Samherja. 
Enn á ný er lagt af stað með stórtónleika að kvöldi Fiskidagsins mikla. Tónleikarnir eru samvinnuverkefni Samherja, RIGG viðburðafyrirtækis Friðriks Ómars, Fiskidagsins Mikla, Exton og fleiri. Á fimmta tug tæknimanna, söngvara og hljóðfæraleikara taka þátt í þessari stór sýningu sem er að öllum líkindum ein sú stærsta og viðamesta sem hefur verið sett upp á Íslandi. Meðal þeirra sem koma fram eru heimamennirnir Friðrik Ómar, Matti Matt og Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Björgvin Halldórsson, Jónas Sig, Ragga Gísla, Birgitta Haukdal, Andrea Gylfadóttir, Friðrik Dór, Pálmi Gunnars, Blaz Rocka, að ógleymdum Ragga Bjarna. Að venju er það stórhljómsveit Rigg viðburða eða með öðrum orðum landslið Íslands sem spilar undir. Dagskráin endar með risaflugeldasýningu sem björgunarsveitin á Dalvík sér um, sýningin er einnig í boði Samherja.