Fiskbúð Fjallabyggðar, GH Fisk ehf. hefur fengið endurnýjað rekstrarleyfi veitinga og má nú bjóða uppá kaldan drykk með Fisk & franskar sem er einn vinsælasti rétturinn þar á bæ. Ekki er um útrás að ræða né stendur til að breyta Fiskbúðinni í krá, heldur verður boðið upp á einn ískaldan frá Segli 67 með fiskréttum eða öðru sem til sölu er. Frá þessu greindi Hákon fisksali og búðareigandi í hlaðvarpinu Á Tæpasta vaði.
Fiskbúðin hefur nú opnað aftur eftir að hafa lokað í mánuð vegna starfa Hákons sem kokkur á frystitogara í sveitarfélaginu.
Það eru ekki margar fiskbúðir hér á landi sem hafa áfengisleyfi, spurning hvort þetta sé sú fyrsta, eða með þeim fyrstu? Óskum Hákoni og Gerðu til hamingju með leyfið og vonandi mælist þetta vel til hjá viðskiptavinum þeirra.
Fjallabyggð tók umsóknina fyrir á síðasta fundi, 27. júní og gerði ekki athugasemd við hana.

