Fimmti tapleikur KF í röð

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Einherji frá Vopnafirði kepptu í 3. deild karla í gær. KF var í 5. sæti deildarinnar og Einherji í 6. sæti og gat með sigri komist uppfyrir KF í töflunni. KF hefur gengið illa seinniparts sumars og vann ekki einn leik í ágúst, hafði tapað síðustu fjórum leikjum, fengið á sig 12 mörk og skorað aðeins eitt. Hvorugt liðið á möguleika á sæti í 2. deild að ári. Það vakti athygli að Slobodan Milisic þjálfari KF var ekki á leikskýrslu, en Sævar Eyjólfsson var skráður þjálfari í þessum leik.

Það var rigning og rok í Vopnafirði nánast allan leikinn, en heimamenn létu það ekki trufla sig og skoruðu strax á 2. mínútu með marki úr vítaspyrnu. Aðeins fjórum mínútum síðar skoraði Einherji aftur, og staðan orðin 2-0 í upphafi leiks, markið gerði Todor Hristov, hans 11 mark í 17 leikjum í sumar. Staðan var því 2-0 í hálfleik fyrir Einherja. Strax í hálfleik gerði KF eina skiptingu, og inná kom Jakob Auðun sem hefur átt fast sæti síðustu tvö árin í byrjunarliði KF, og út af fór Björgvin Daði, sem er ungur og efnilegur leikmaður KF, og á 11 leiki fyrir félagið. Á 58. mínútu gerði KF aðra skiptingu til að reyna hressa upp á sóknarleikinn, en inná kom Valur Reykjalín fyrir Jón Árna. Á 70. mínútu fékk svo leikmaður Einherja rautt spjald og léku þeir manni færri til leiksloka. Hákon Léo fór útaf á 70. mínútu fyrir KF og inná kom Magnús Aron. Fleiri urði mörkin ekki, en KF fékk nokkrar aukaspyrnur rétt fyrir utan vítateig, en þær tilraunir fóru hátt yfir markið. Of mikið var um ónákvæmar sendingar og of fá opin færi.

Þetta var fimmti tapleikur KF í röð, og liðið kemst ekki upp í 2. deild þetta árið þrátt fyrir að hafa bætt við sig nokkrum mönnum fyrir tímabilið og í lok júlí. Markmiðið var klárlega að fara strax upp aftur en liðið féll úr 2. deildinni í fyrra. Ein umferð er eftir af deildinni.

Einherji sýndi  beint frá leiknum á Youtube rás sinni, en einhver truflun var á útsendingu og byrjaði hún ekki fyrr en seint í fyrri hálfleik.