Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.
Knattspyrnufélag Fjallabyggðar tók á móti Sindra á Ólafsfjarðarvelli í dag. Liðin hafa fylgst að síðustu árin og verið í sömu deild, liðin mættust þó síðast árið 2016. Sindri hafði unnið síðustu fjóra leiki gegn KF, og suma þeirra stórt. Í tveimur viðureignum liðanna árið 2016 þá vann Sindri 4-0 og 0-3. Tvær breytingar voru á byrjunarliði KF frá síðasta leik sem var gegn Einherja, Kristófer Andri og Jakob Auðun voru komnir í byrjunarliðið í staðinn fyrir Hákon Leó og Sævar Þór.
Sindri hefur farið hægt af stað í deildinni og ætluðu að selja sig dýrt í þessum leik. Sindri byrjaði leikinn betur og voru komnir yfir snemma leiks. Staðan var 0-1 í hálfleik fyrir gestina, og skömmu eftir leikhlé fá Sindramenn dæmda vítaspyrnu eftir að Halldór Ingvar braut af sér. Sindramenn náðu ekki að nýta vítið, en fjórum mínútum síðar skora Sindramenn aftur og staðan orðin 0-2. Nokkrum mínútum eftir annað markið skora gestirnir svo aftur og staðan orðin vænleg, 0-3 og rúmar 25 mínútur eftir af leiknum. Þjálfari KF gerði þrefalda skiptingu á 68. mínútu, og lét ferska menn inná, og eina skiptingu þegar skammt var eftir af leiknum. Mörkin urðu ekki fleiri og fara gestirnir með þrjú stig frá Ólafsfjarðarvelli og hafa nú unnið síðustu fimm viðureignir gegn KF.
Þetta var þriðja tap KF í fjórum leikjum, aðeins einn sigur enn kominn í hús. KF hefur aðeins skorað 2 mörk í 4 leikjum en fengið á sig 6 mörk, en það er ákveðið áhyggjuefni þegar illa gengur að skora.
KF leikur næst gegn Vængjum Júpíters á Fjölnisvelli eftir viku.