Fimm mörk og dramatík á Ólafsfjarðarvelli – Umfjöllun í boði Aðalbakarís og Arion banka

Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Vængir Júpiters mættust á Ólafsfjarðavelli í dag í 9. umferð 3. deildar karla. Leikurinn var eins og aðrir mikilvægur fyrir bæði lið til að halda sér í toppbaráttunni. KF gat komist í 2. sætið með sigri og Vængirnir gátu saxað á forskot KF, en liðið var í 4. sætinu og fjórum stigum frá KF fyrir þennan leik. Það var nokkur vindur á meðan leiknum stóð, eða um 7 m/s og hitinn rétt undir 7 gráðum. Veður var því ekki mjög spennandi fyrir leikmenn og áhorfendur á þessum leik, sem voru þó 89 í stúkunni.

Liðin höfðu mæst fjórum sinnum á síðustu tveimur árum, og skiptust liðin á að vinna heimaleikina í fyrra 2-0, en árið 2017 vann KF 5-0 á heimavelli og tapaði svo 5-3 á útivellinum og voru það miklir markaleikir.

Það voru hins vegar gestirnir sem brutu ísinn og skoruðu fyrsta mark leiksins á 33. mínútu þegar Jónas Svavarsson skoraði og kom Vængjunum í 0-1. Rétt fyrir hálfleik varð svo Hákon Leó fyrir því að skora í eigið mark, og komust Vængirnir í 0-2 og var það einnig staðan í hálfleik.

KF komu ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og náðu sér í tvö gul spjöld á fyrstu tíu mínútunum í síðari hálfleik.  Markakóngurinn Alexander Már, skoraði svo mikilvægt mark á 56. mínútu og gaf heimamönnum líflínu og von. Hans 9. mark í deildinni í sumar.  Á 65. mínútu gerði þjálfari KF sína fyrstu skiptingu og kom Þorsteinn Már inná fyrir Vitor, sem hafði nælt sér í gult spjald í upphafi síðari hálfleiks. Á 75. mínútu kom svo tvöföld skipting hjá KF þegar Sævar Þór og Grétar Áki komu inná fyrir Halldór Loga og Hákon Leó. Á 82. mínútu kom svo fjórða skiptingin til að hressa uppá sóknarleikinn þegar Ljubomir kom inná fyrir Val Reykjalín og var nú allt lagt í að ná jöfnunarmarki.  Aðeins þrem mínútum síðar, eða á 85. mínútu fengu KF vítaspyrnu dæmda og á punktinn fór Alexander Már og skoraði hann og jafnaði leikinn í 2-2, hans 10. mark í deildinni í sumar. Tryggvi Guðmundsson þjálfari Vængjanna fékk svo gult spjald fyrir mótmæli en hann var ekki sáttur með vítaspyrnudóminn.

Allt stefndi í jafntefli á Ólafsfjarðarvelli, en þegar þrjár mínútur voru liðnar af uppbótartíma þá skoruðu gestirnir sigurmarkið og unnu dramatískan sigur á Ólafsfjarðarvelli. Þeirra fyrsti sigur á vellinum.

KF er því enn í 3. sæti, en eru aðeins einu stigi á eftir Kórdrengjum. Vængir Júpiters eru farnir að anda ofan í hálsmálið á KF, og eru aðeins stigi á eftir. Næstu umferðir verða spennandi og eru línur í topp- og botnbaráttunni þegar farnar að skýrast.