Fimm athugasemdir við grenndarkynningu gamla Gagnfræðiskólans

Eins og fram hefur komið þá hyggst nýr eigandi breyta gamla Gagnfræðiskólanum á Siglufirði í fjölbýlishús með 14 íbúðum. Fyrirhugaðar breytingar á húsinu hafa nú verið grenndarkynntar og bárust fimm athugasemdir auk umsögn frá Minjastofnun Íslands.

Í bréfi Minjastofnunar kemur fram að húsið falli ekki undir ákvæði laga um menningarminjar. Fram kemur að húsið hafi listrænt gildi sem höfundarverk Guðjóns Samúelssonar. Þá kemur fram að þó Minjastofnun sé hlynnt aðlögun húsa að nýju hlutverki sé álitamál hvort réttlætanlegt sé að breyta húsinu með svo afgerandi hætti sem tillagan gerir ráð fyrir með takmarkaðri tilfinningu fyrir einkennum hússins. Útfærslur á svölum og þakkvistum séu óásættanlegar á svo stílhreinu húsi. Lagði því stofnunin til ákveðnar breytingar á þeirri hönnun sem var grenndarkynnt.

Þar sem húsið fellur ekki undir ákvæði laga um menningarminjar er umsögn Minjastofnunar aðeins leiðbeinandi samkvæmt svari frá Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar.

Helstu athugasemdir nærliggjandi íbúa snúa að svölum sem fyrirhugað er að byggja, bílastæðaskorti og aukinni umferð á Hlíðarvegi, auk höfundaréttar Guðjóns Samúelssonar.

Á nýjum teikningum sem lagðar voru fram eftir grenndarkynningu, þá eru svalir minnkaðar á austurhlið hússins. Aðeins eru teiknaðar svalir í einu gluggabili fyrir miðju hússins á 2. og 3.hæð auk kvistar á rishæð.  Ekki er gert ráð fyrir að reisa kvist vestan megin á húsið, heldur á það austanvert. Gert er ráð fyrir 16 bílastæðum innan lóðar og 6 til viðbótar við Hlíðarveg 21.

Skipulags- og umhverfsnefnd Fjallabyggðar hefur samþykkt nýjar teikningar Elínu Þorsteinsdóttur af breyttri hönnun hússins. Deildarstjóra Tæknideildar Fjallabyggðar hefur verið falið að útbúa byggingaleyfi og fer svo til samþykktar í bæjarráði Fjallabyggðar.

Uppfært: Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt breytingar á teikningum og ljóst er að byggingaleyfi verður veitt.

grunnskolinn