Reykjavíkurborg og einkafyrirtæki hafa að undanförnu stóraukið gjaldtöku fyrir bílastæði, stækkað gjaldtökusvæði, lengt gjaldtökutíma og sett upp ný. Gjaldtaka á sumum nýlegum bílastæðum í einkaeigu lyktar af græðgi. Nefna má bílastæðið á Barónsstíg 4, þar sem klukkutíminn kostar 1.000 kr og innheimt er allan sólarhringinn.

Frumskógur innheimtuleiða og gjaldtökusvæða veldur því jafnframt að fjölmargir bíleigendur fá allt að 4.500 kr. kröfu um vanrækslugjald eða aukastöðugjald vegna þess að þeir greiddu ekki fyrir rétt stæði – þó þeir hafi greitt fyrir stæði – eða voru ekki með tiltækt rétt app eða greiðsluaðferð.

Alvarlegur fylgifiskur þessarar útþenslu gjaldtökustæða er að ánauð eykst á gjaldfrjáls bílastæði. Íbúar miðsvæðis í Reykjavík eru víða að missa stæði við heimili sín vegna þessa. Lengdur gjaldskyldutími Reykjavíkurborgar til kl. 21 alla daga vikunnar hefur gert illt verra í þessum efnum.

Ein sérkennilegasta birtingarmynd græðgisvæðingarinnar er bílastæðið við Domus Medica Egilsgötu 3. Þar er gjald innheimt allan sólarhringinn, þó svo að engin starfsemi sé í húsinu frá því seinnipart dags fram á morgun. Eftir að gjaldtakan hófst stendur stæðið tómt stóran hluta sólarhringsins. Nágrannar sem áður gátu nýtt sér stæðið gjaldfrjálst næturlangt nota í staðinn bílastæði við heimili fólks í nálægum götum. Troðningurinn eykst. Skammt frá Domus Medica er nýbyggt fjölbýlishús að Snorrabraut 62 án bílastæða. Einhvers staðar munu íbúar þess þurfa að leggja bílum sínum.

Víða skortir allar verðupplýsingar á stæðum einkafyrirtækja og um lengd gjaldtökutíma. Fólk þarf að fara að skiltum á stæðunum og skanna þar QR kóða til að fá upplýsingar í farsíma. Ljóst er að þessi upplýsingaskortur stenst ekki lög eða reglugerð um verðupplýsingar. Undrun sætir að Neytendastofa hafi ekki tekið í taumana vegna þess.

Þá er með ólíkindum að viðskiptavinir opinberra stofnana þurfi að greiða fyrir bílastæði þegar þeir eru tilneyddir til að eiga erindi þangað. Þjóðskrá og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun eru meðal fjölmargra opinberra stofnana í Borgartúni 21 og þar er tekið gjald fyrir að stoppa á bílastæðinu framan við húsið. Ekki er í boði að leggja frítt t.d. fyrsta hálftímann. Annars staðar við götuna þarf ekki að borga í bílastæði.

Kolkrabbi greiðsluleiða og innheimtufyrirtækja

Fjöldi bílastæðafyrirtækja og flækja greiðsluleiða valda því að bíleigendur fá oftar en ekki kröfu um greiðslu „vanrækslugjalda” upp á margfaldar fjárhæðir sjálfra bílastæðagjaldanna. Til að lenda ekki í slíkum hremmingum neyðast bíleigendur til að skrá bíla sína og greiðslukort hjá mörgum aðilum og hafa á hreinu hvernig á að borga á hverjum stað.

Greiðsluleiðirnar sem til boða standa eru eftirfarandi:

  • Greiðsluvélar á staðnum – þó ekki alls staðar.
  • Sjálfvirk inn- og útskráning gegnum app – ef viðeigandi app fyrir viðkomandi bílastæði er í símanum.
  • Handvirk inn- og útskráning – ef viðeigandi app er í símanum.
  • Parka app.
  • Easypark app.
  • Verna app.
  • Autopay app eða greiðsla á vefsíðu Autopay.
  • Checkit.is vefgreiðsla, aðeins í boði fyrir þjóðgarðinn á Þingvöllum.
  • Veggjald.is vefgreiðsla, aðeins í boði fyrir Vaðlaheiðargöng.
  • Eigin greiðslulausn Isavia á Keflavíkurflugvelli, á netinu og í greiðsluvélum.

Engar greiðslulausnanna gilda á öllum bílastæðum eða bílahúsum, hvort sem er á vegum sveitarfélaga og einkaaðila. Víða er aðeins ein greiðsluleið í boði fyrir viðkomandi bílastæði, sem þar með hindrar mögulega samkeppni þjónustuaðila. Þá er tæplega 100 kr. þjónustugjaldi bætt ofan á bílastæðisgjaldið hjá Parka og Easypark, en ekki hjá Verna.

Frumskógurinn þéttist síðan þegar kemur að samspili þeirra sem eiga eða þjónusta bílastæði og annast innheimtu.

Reykjavíkurborg rekur sín eigin bílastæði og bílahús gegnum Bílastæðasjóð Reykjavíkur. Borgin er með opin þjónustuskil að tölvukerfi Bílastæðasjóðs fyrir þá aðila sem vilja annast inn- og útskráningu og taka við greiðslum gegnum öpp í farsíma. Parka, Easypark og Verna bjóða þá þjónustu.

Parka lausnir ehf, sem er með mestu umsvifin í þessum geira með Parka appinu, á fyrirtækið Myparking ehf, sem rekur bílastæði í einkaeigu í Reykjavík og á ferðamannastöðum. Meðal bílastæða á vegum Myparking eru sólarhringsstæðin á Barónsstíg 4 og við Domus Medica. Myparking rekur einnig stæði á Hverfisgötu 18, Laugavegi 3 og Geirsgötu 11. Meðal ferðamannastaða í umsjón Myparking eru Reynisfjara og Brúarfoss. Á öllum stöðum sem Myparking rekur er aðeins hægt að borga með Parka appinu.

Öryggismiðstöðin á fyrirtækin Green Parking, Sanna landvætti og 115.is sem annast rekstur bílastæða um allt land. Meðal stæða á höfuðborgarsvæðinu má nefna við Landspítalann og BSÍ, bílakjallarann í Hamraborg og Fosshótel Barón við Skúlagötu. Á landsbyggðinni eru það m.a. bílastæði við Laufskálavörðu, Námaskarð og Kirkjufellsfoss.

Gulur bíll ehf rekur bílastæði og bílakjallara við Grósku, svo og bílakjallara Félagsstofnunar stúdenta við HÍ. Aðeins er boðið upp á að greiða með Autopay appinu, og er gjaldtaka allan sólarhringinn þó svo lítil sem engin starfsemi eigi sér stað á kvöldin og nóttunni.

Stefna hugbúnaðarhús sér um bílastæðaþjónustuna á Þingvöllum og innheimtu í Vaðlaheiðargöngum í gegnum Kvasir lausnir ehf. og greiðslugáttina Checkit.is. Aðeins er í boði að nota eigin tæknilausnir fyrirtækisins á staðnum og á netinu til að taka við greiðslum fyrir afnot bílastæðanna og akstur gegnum Vaðlaheiðargöng.

Isavia á Keflavíkurflugvelli notar tæknilausn frá Autopay í Noregi, ótengt Autopay hjá Gulum bíl við Grósku.

Gengur gegn hagsmunum almennings

Ringulreið innheimtuaðferða, græðgisvæðing á bílastæðum og lenging gjaldtökutíma lendir af fullum þunga á herðum almennings. Óviðunandi er að fólk sitji uppi með alls konar refsigjöld vegna þessa ástands. Sérkennilegt er að horfa upp á þéttingu íbúabyggðar í miðborg Reykjavíkur á sama tíma og bílastæðum er fækkað, stæðisgjöld hækkuð og gjaldtökusvæðum fjölgað, án þess að því fylgi aukin og bætt þjónusta með almenningssamgöngum.

Aðhalds- og aðgerðaleysi hins opinbera gagnvart þessari þróun veldur vonbrigðum. Hvorki heyrist hósti né stuna frá innviðaráðuneytinu, Samgöngustofu eða Neytendastofu.

Texti og myndir: Aðsent/fib.is