Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar hefur samþykkt að úthluta 5 einbýlishúsalóðum sem eftir voru í Bakkabyggð í Ólafsfirði meðfram Ólafsfjarðarvatni til fasteignafélagsins Reykjanes Investment ehf.  Um er að ræða lóðir Bakkabyggð 10-18, sem voru síðustu lóðirnar við götuna sem átti eftir að úthluta.

Fasteignafélagið Reykjanes Investment var stofnað 2021 og voru með 110 milljónir í eigið fé fyrsta árið.  Stjórn félagsins skipa: Kjartan Páll Guðmundsson, Sigurgeir Rúnar Jóhannsson, Viktoría Hrund Kjartansdóttir og Magnús Guðmundsson. Þetta kemur fram í upplýsingum í ársreikningi félagsins frá 2021.

Tilgangur félagsins er kaup og sala á fasteignum, nýbygging fasteigna og endurbætur fasteigna.

Það verður áhugavert að sjá þessar nýbyggingar í Ólafsfirði fara í gang þegar öll samþykki liggja fyrir, en ferlið getur verið langt þar til byggingarleyfi er komið.

Afar áhugavert verður hvort þessar eignir fari á sölu í almennan markað eða hvort fasteignafélag sem þetta sé með önnur rekstrarplön eftir að eignirnar verða fullbyggðar.

Fjallabyggð hefur síðustu mánuði reynt að greiða fyrir uppbyggingu húsnæðis til dæmis með því að klára gatnagerð við skipulagða reiti, bæði til byggingar á íbúahúsnæði sem og á svæðum ætluðum atvinnustarfsemi.

Sett hefur verið af stað vinna við jarðvegsrannsóknir á stærri byggingarreitum til að auka fyrirsjáanleika fyrirhugaðra framkvæmda.

Myndlýsing ekki til staðar.