Bæjarstjórinn á Akureyri og framkvæmdastjóri Fallorku ehf. undirrituðu í dag samning um að Fallorka reisi og reki 3,3 MW vatnsaflsvirkjun í Glerá ofan bæjarins. Meginmarkmið með framkvæmdinni er að nýta endurnýjanlega náttúruauðlind til að framleiða raforku á hagstæðu verði fyrir viðskiptavini Fallorku sem eru að stórum hluta Akureyringar.

Um 5-6 metra há stífla og um 10.000 m² lón verða í rúmlega 300 m hæð yfir sjávarmáli skammt innan við vatnslindir Norðurorku á Glerárdal. Frá stíflunni verður um 5.800 metra löng fallpípa grafin niður norðan við ána og liggur niður í Réttarhvamm. Þar verður um 50 m² stöðvarhús. Raforka verður send inn á dreifikerfi Norðurorku um jarðstreng.

Akureyrarbær breytir aðalskipulagi og deiliskipulagi eins og þörf krefur vegna framkvæmdarinnar. Sá fyrirvari er settur að samþykki Skipulagsstofnunar fáist fyrir skipulagsbreytingum og að mögulega þurfi að laga áætlanir um fyrirkomulag og frágang að kröfum Skipulagsstofnunar.

Nánar um þetta á Akureyri.is

Texti: www.akureyri.is