Á dögunum kom Geir Sigurðsson, deildarstjóri fyrirtækisins Halldórs Jónssonar í Reykjavík, í heimsókn á námsbraut í hársnyrtiiðn og færði henni á 40 ára afmæli VMA veglega gjöf frá fyrirtækinu, Climazone hitatæki, sem mun sannarlega nýtast vel í kennslunni.

Þessi gjöf Halldórs Jónssonar var kærkomin fyrir nemendur og kennara í hársnyrtiiðn. Þetta nýja hitatæki, sem er mjög öflugt, er fyrst og fremst notað í háralitun og permanent og býr yfir bæði blæstri og þurrkun.

Þrátt fyrir að starfa hjá þessu öfluga og rótgróna heildsölufyrirtæki í Reykjavík býr Geir á Akureyri, enda Akureyringur í húð og hár. Sjálfur lærði hann hársnyrtiiðn og starfaði um tíma í faginu á Rakarastofu Akureyrar.

Hitatækið má sjá á meðfylgjandi mynd og við það standa Geir Sigurðsson, Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari og kennararnir tveir í hársnyrtiiðn í VMA, Harpa Birgisdóttir og Hildur Salína Ævarsdóttir.