Leikskólinn Leikhólar í Ólafsfirði fékk nýverið afhenta veglega gjöf frá Ólafsfirðinginum Sigurgeiri Svavarssyni (Geiri Svavars), en hann færði skólanum sex pör af gönguskíðum ásamt skíðaskóm.
Það var Björk Óladóttir, deildarstjóri og aðstoðarleikskólastjóri sem tók við gjöfunum fyrir hönd skólans frá foreldrum Sigurgeirs, en hjónin Anna María og Svavar afhentu gjafirnar fyrir hans hönd.
Sigurgeir er sjálfur smiður á Akureyri en er gamall gönguskíðagarpur úr Ólafsfirði.
Það verða árgangar 2018-2020 sem njóta góðs af skíðunum í vetur, en fyrir eru nokkur skíðasett sem voru gefin af Skíðafélagi Ólafsfjarðar.
Krökkunum á leikskólanum finnst mikið sport að æfa sig á skíðum og hafa börnin þurft að skiptast á til þessa og bíða þolinmóð sem getur verið erfitt.
Skíðin verða notuð á leikskólalóðinni í Ólafsfirði og eru vinsæl í útiverunni yfir veturinn þegar nægur snjór er.
Frábær gjöf sem á eftir að nýtast vel hjá Leikskólanum Leikhólum.