Lengi hefur verið vitað að núverandi húsnæði leikskólans Barnaborgar að Suðurbraut 7 á Hofsósi er óhentugt fyrir þá starfsemi sem er í húsinu, bæði fyrir börn og ekki síður fyrir starfsmenn leikskólans. Húsið er gamalt og þarfnast verulegra úrbóta eigi það að standast nútíma kröfur um leikskóla. Rakaskemmdir í húsinu hafa komið í ljós og nú er svo komið að Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra hefur sent sveitarfélaginu bréf þar sem fram kemur að starfsleyfi leikskólans verði fellt úr gildi frá og með 1. maí n.k. og því ljóst að finna verður leikskólanum annað húsnæði þar sem ekki er boðlegt fyrir nemendur og kennara að vera á núverandi stað.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur samþykkt að halda áfram með hönnun og kostnaðaráætlun á framtíðarhúsnæði fyrir leikskólann á Hofsósi í viðbyggingu við grunnskólann á Hofsósi. Hraða þarf þeim framkvæmdum sem kostur er. Forgangsatriði er að koma börnum og kennurum úr núverandi húsnæði sem fyrst í tímabundið húsnæði þar til nýtt húsnæði leikskólans verður tekið í notkun.
Mat Byggðarráðs Skagafjarðar er að skynsamlegast sé að flytja leikskólann tímabundið inn í húsnæði Höfðaborgar á Hofsósi þar til framtíðarlausn leikskólans er tilbúin. Þær framkvæmdir sem þarf að ráðast í til þess að því geti orðið taka ekki langan tíma og verða afturkræfar að fullu. Hönnun á leikskóla inn í Höfðaborg liggur að mestu fyrir og hefur verið samþykkt að farið verði í framkvæmdina hið fyrsta.