Fækkun skemmtiferðaskipa á Siglufirði vegna kórónuveirunnar

Ljóst er að skemmtiferðaskipum mun fækka á Siglufirði í ár vegna kórónuveirunnar sem herjar á heimsbyggðina. Skipið Ocean Diamond hefur afbókað 11 heimsóknir til Siglufjarðar í sumar, en skipið siglir hringinn í kringum landið með um 190 farþega. Fyrsta ferðin þeirra átti að vera frá Reykjavík 11. maí en eins og áður sagði þá hefur þessum ferðum verið aflýst.

Alls voru áætlaðar 24 skipakomur til Siglufjarðar í ár, en samkvæmt nýjustu upplýsingum þá er enn gert ráð fyrir 13 heimsóknum og ætti sú fyrsta að vera 19. júní ef ekkert  breytist. Þessi fækkun þýðir talsvert tekjutap fyrir höfnina, söfnin og aðra þjónustuaðila sem þessir ferðamenn leita til í þessum stoppum á Siglufirði.