Fækkar um einn vefmiðil í Fjallabyggð

Elsti vefmiðillinn í Fjallabyggð, vefurinn Siglfirðingur.is er orðinn 10 ára og kemur fram á síðunni að eigandi og ritstjóri síðunnar hafi ákveðið að hætta rekstri hennar. Sr. Sigurður Ægisson hefur haldið úti síðunni frá júní 2010, og hefur boðið uppá vandað viðtalsefni, greinar, fréttir, myndir og annan fróðleik frá Siglufirði. Færum við honum bestu kveðjur og samstarfið á liðnum árum.

Síðasta áratuginn hafa verið að jafnaði þrír vefmiðlar í Fjallabyggð, og verður það að teljast nokkuð gott fyrir ekki stærra samfélag. Miðillinn Siglo.is hætti rekstri fyrir nokkrum árum, en vefurinn hefur ekki verið uppfærður í tæp tvö ár. Vefurinn 625.is hætti rekstri fyrir nokkrum árum, en hann greindi frá fréttum og menningu úr Ólafsfirði.

Héðinsfjörður.is fór í loftið í mars 2011, og verður því tíu ára á næsta ári. Á vefnum eru upplýsingar um gistingu og þjónustu fyrir ferðamenn ásamt fréttum af menningu og íþróttum.

Héðinsfjörður.is býður áfram upp á ódýrt auglýsingapláss og birtingar af fréttatilkynningum og aðsendu efni.