Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar hefur samþykkt að ráða Eyrúnu Sigþórsdóttur í starf sveitarstjóra Dalvíkurbyggðar. Þetta kemur fram á vef Dalvíkurbyggðar.
Eyrún er viðskiptafræðingur, með meistaragráðu í verkefnastjórnun og hefur starfað í sveitarstjórnamálum síðastliðin 20 ár, sem oddviti, sveitarstjóri og ráðgjafi. Hún er ein þriggja eigenda Ráðrík ráðgjafastofu sem sérhæfir sig í ráðgjöf varðandi sveitarstjórnamál.
Eyrún er fædd í Vestmannaeyjum, gift Tryggva Ársælssyni og eiga þau fjögur börn saman en fyrir átti Tryggvi eitt barn. Þau hjónin hafa rekið útgerð frá Tálknafirði síðan 1991.
Eyrún hefur starfað sem formaður fagráðs um flugmál, varaformaður LÍN, varaformaður Hafnasambands Íslands, í stjórn Orkubús Vestfjarða og Hafnaráði.