Eykur þjónustu og stuðning við aðstandendur fanga

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur veitt Þjóðkirkjunni styrk að upphæð 10 milljónir króna til þess að geta boðið aðstandendum fanga upp á þjónustu, stuðning og ráðgjöf. Aðstandendur fanga eru oft í erfiðri stöðu og geta þurft á stuðningi og ráðgjöf að halda bæði í kjölfar þess áfalls að sjá nákominn aðila handtekinn og til að takast á við langa fjarveru viðkomandi. Biskupsstofa mun hafa umsjón með verkefninu, sem er tilraunaverkefni til eins árs.

Styrkurinn gerir Biskupsstofu kleift að ráða fjölskylduráðgjafa sem byrja mun á að kortleggja þörf fyrir þjónustu af þessu tagi. Í framhaldinu verður þjónustan kynnt en Biskupsstofa mun tryggja að þjónustan verði aðgengileg aðstandendum fanga um allt land. Verkefnið verður unnið í samstarfi við aðila sem gætu haft milligöngu um að benda á þjónustuna. Má þar nefna lögreglu, Fangelsismálastofnun, presta og aðra sem sinna þjónustu.

Fjölskyldu- og sálgæsluþjónusta kirkjunnar mun útvega húsnæði og tryggja faglegt starfsumhverfi. Þjónustan verður öllum aðgengileg og mun taka mið af fjölbreytileika samfélagsins.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra: „Það er mikið ánægjuefni að hafa undirritað samning við Þjóðkirkjuna um þetta þarfa verkefni. Það getur verið gríðarlegt áfall þegar einstaklingur er handtekinn, jafnvel inni á heimili sínu, að viðstöddum fjölskyldumeðlimum. Hinn grunaði er fjarlægður og eftir sitja aðstandendur og vita oft ekki hvernig þeir geta unnið úr áfallinu. Ég ber miklar væntingar til þessa tilraunaverkefnis og hlakka til að fylgjast með því.“