Er öryggi íbúa og gesta á Tröllaskaganum ógnað? Opið bréf til stjórnenda HSN

Er öryggi íbúa og gesta á Tröllaskaganum ógnað? Opið bréf til stjórnenda HSN

Í sambandi við áform Heilbrigðisstofnunar Norðurlands þá langar mig að benda á nokkur mikilvæg atriði sem ég tel að þurfi að tala um og koma á framfæri. Ég tel mig vera að tala fyrir munn allra Ólafsfirðinga því það er einhugur bæjarbúa hérna í Ólafsfirði, flestra ef ekki allra á Siglufirði og Dalvík og nágrenni sem sagt flestra ef ekki allra á Tröllaskaganum og víðar, um að mæla fyrir áframhaldandi  tilvist sjúkrabílsins í Ólafsfirði.

Nú þegar eru komnar 1,070  undirskriftir þar sem skorað er á stjórnendur HSN að þið sjáið að ykkur, breytið áformum ykkar og að sjúkrabíllinn í Ólafsfirði verði áfram með óbreyttu fyrirkomulagi þ.e. með fullmannaðri áhöfn á bakvöktum.

Í pistli á hsn.is frá 21. mars 2017 segir „Margar skýrslur hafa verið unnar um sjúkraflutninga á undanförnum árum.“ Síðan er einhver upptalning á skýrslum en enginn aðgangur að skýrslunum sjálfum, og því ekki hægt að kynna sér innhald þeirra, svona til að reyna að skilja hvað fyrir ykkur vakir.

Í þessum pistli segir einnig:

Viðbragð við slysum og bráðum veikindum þarf að berast sem fyrst og vera eins faglegt og öruggt og kostur er miðað við þær aðstæður sem við búum við. Við skipulag sjúkraflutninga þarf að taka tillit til ýmissa þátta svo sem vegalengda milli staða og samgangna, íbúafjölda, fjölda flutninga og menntunar og þjálfunar sjúkraflutningamanna.

Þarna talið þið um að viðbragð við slysum og bráðum veikindum þurfi að berast sem fyrst og vera eins faglegt og öruggt og kostur er miðað við þær aðstæður sem við búum við, samt eruð þið að gera allt sem í ykkar valdi stendur til að lengja viðbragðstímann, minnka þetta faglega í viðbragðinu og svo sannarlega að minnka öryggið við þær aðstæður sem við búum við, og talandi um viðbragð og öryggi, hafið þið hjá HSN kannað hvað Vegagerð Íslands segir um þessar fyriætlanir ykkar, ég hef heyrt það að þeir geri kröfur um að það séu viðbragðsaðilar til taks beggja megin allra umferðagangna á svæðinu, og þá tölum við um Héðinsfjarðargöngin sem ein göng í samhenginu.

Svo er hérna enn ein snilldin í þessum pistli frá ykkur:
Framkvæmdastjórn HSN hefur komist að þeirri niðurstöðu að leggja af sjúkrabílavakt á Ólafsfirði en að sjúkrabíllinn verði áfram staðsettur þar og væri tiltækur ef aðstæður krefðust. Tryggja þarf viðbragð þar við bráðum uppákomum og er stefnt að því að mynda hóp vettvangsliða í samstarfi við slökkvilið og/eða björgunarsveit til að sinna fyrsta viðbragði áður en sjúkrabíll kæmi frá Siglufirði eða í undantekningartilfellum frá Dalvík.

Ég spyr:

 • Hvaða gagn er af áhafnarlausum sjúkrabíl?
 • Vitið þið hjá HSN hvaða réttindi menn þurfa að hafa til að mega aka sjúkrabíl?
 • Hver á að hugsa um þann búnað sem þarf að vera til staðar í sjúkrabílnum?
 • Hafið þið sett ykkur í samband við slökkviliðið í Ólafsfirði varðandi það að mynda vettvangshóp?
 • Hafið þið sett ykkur í samband við björgunarsveitina í Ólafsfirði varðandi það að mynda vettvangshóp?
 • Hafið þið eitthvað kynnt ykkur hversu oft 2 af bílunum hafa verið á ferðinni á sama tíma og hversu oft þeir hafa verið allir 3 á ferðinni á sama tíma? Ég veit að það hefur komið fyrir oftar en einu sinn og oftar en tvisvar!!
 • Þið segið að það kæmi sjúkrabíll frá Dalvík í undantekningartilfellum!! Er það ekki spurning um það hversu oft sjúkrabílarnir eru á ferðinni á sama tíma hvort að þið getið leyft ykkur að kalla það undantekningartilfelli eða ekki?
 • Eruð þið búin að reikna út hversu mikið viðbragðstími sjúkrabíls í tilfellum í Ólafsfirði lengist ef kallaður er út bíll frá Siglufirði? Eins ef þarf að kalla út bílinn á Dalvík?
 • Þá bæði miðað við vetraraðstæður annars vegar og sumaraðstæður hins vegar?
 • Hver er ásættanlegur viðbragðstími sjúkrabíls að ykkar mati? Þegar ég var að vinna sem mest í þessu fyrir nokkrum árum þá var talað um að það væri ekki ásættanlegt ef viðbragðstími sjúkrabíls færi yfir 10 mínútur!! Hef enga trú að þessi ásættanlegi tími hafi eitthvað lengst!!

Þið segist hafa rætt við sveitastjórn Fjallabyggðar og starfsfólk HSN í Fjallabyggð, mér skilst að það hafi farið þannig fram að þið mættuð á svæðið til að segja frá þessum aumu fyrirætlunum ykkar, en ekki til að ræða málin á þeim forsendum að það ætti eftir að taka endanlega ákvörðun, því það var klárlega búið að taka þessa ákvörðun. Ég veit ekki betur en að það sé einhugur hjá sveitastjórn Fjallabyggðar að rekstri sjúkrabílsins í Ólafsfirði verði haldið áfram í óbreyttri mynd, ég er varabæjarfulltrúi og hef rætt þessi mál innan sveitarstjórnarinnar.

Það hvort að sjúkrabíll sé staðsettur í nánasta nágrenni er ein af þeim forsendum sem fólk horfir í þegar það velur sér búsetu og hvar það vill koma upp sinni fjölskyldu.

Fjöldi flutninga sjúkrabílanna á Tröllaskaga árið 2016, flutningar sem eru boðaðir út sem F1 og F2  eru forgangsflutningar, þar sem notast er við bláu forgansljósin og jafnvel sírenur bílsins til að flýta fyrir flutningnum. F3 og F4 eru almennir flutningar.

F3 flutningur þýðir þó ekki alltaf að flutningurinn megi bíða, heldur verður að halda af stað strax.

Ólafsfjörður F1 = 11 flutningar F2 = 20 flutningar F3 = 28 flutningar F4 = 48 flutningar samtals 107 flutningar.

Siglufjörður F1 = 19 flutningar F2 = 43 flutningar F3 = 50 flutningar F4 = 69 flutningar, samtals 181 flutningar.

Dalvík F1 = 20 flutningar F2 = 28 flutningar F3 = 50 flutningar F4 = 27 flutningar, samtals 125 flutningar.

Samtals eru þetta F1 =50  F2 = 91  F3 = 128  F4 = 144 Alls eru þetta 413 flutningar sem ég tel vera þó nokkur fjöldi ferða fyrir þessa 3 sjúkrabíla á Tröllaskaganum.

Það sem af er árinu 2017 er sjúkrabíllinn í Ólafsfirði búinn að fara í F1 = 6 F2 = 4 F3 = 13 F4 =6

Ég er ekki með tölurnar yfir það hvað hinir bílarnir eru búnir að fara í marga flutninga það sem af er árinu 2017

Ekki er nokkur leið til að segja til um það hvernig flutningarnir frá Ólafsfjarðarbílnum myndu skiptast niður á hina tvo bílana. En það er bara einfaldlega svo að sjúkraflutningum hefur farið fjölgandi á hverju ári undanfarin ár.

Hér á eftir koma nokkrar forsendur þess að ég tel klárlega vera mjög góðar ástæður fyrir því að ekki má legga niður sjúkrabílinn í Ólafsfirði.

 

 • Að missa sjúkrabíl af svæðinu er afturför áratugi aftur í tímann. Bæði hefur það áhrif á öryggi bæjarbúa en ekki síður hefur þetta áhrif á val fólks til búsetu eins og gefur að skilja
 • Það búa hérna fjölskyldur sem innihalda fjölskyldumeðlimi með bráðaofnæmi, og hafa þessir einstaklingar þurft að notast við sjúkrabílinn í Ólafsfirði oftar en einu sinni og ósjaldan hafa mínúturnar í viðbragðstímanum skipt höfuðmáli.
 • Viðbragðstíminn verður allt of langur,eykst allavega um c.a. 20 – 25  mín, við bestu aðstæður!! og mun meira eftir því sem aðstæður vera lélegri. Þannig að viðbragðstíminn yrði sennilega aldrei minni en c.a. 30 – 40 mín fyrir þá sem eru staddir í Ólafsfirði og þurfa að nota sér þjónustu sjúkrabíls við bestu veður skilyrði og færð (og miklu meira ef það er eitthvað að veðri og færð). Þrátt fyrir Héðinsfjarðargöng er oft ófært á milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar á veturna og ennþá oftar ófært á milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur,
 • Sjúkrabíllinn í Ólafsfirði er staddur miðsvæðis þeirra þriggja sem staðsettir eru á Tröllaskaganum og er því alltaf með stystan viðbragðstíma ef kalla þarf út aukabíl til Siglufjarðar eða Dalvíkur, eða í slys sem verða úti á þjóðvegi, eða bara slysa almennt
 • Umferð og ferðamannastraumur hefur aukist gríðarlega mikið um Tröllaskagann með tilkomu Héðinsfjarðargangnanna milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar sem margfaldar slysahættu
 • Í kringum Fjallabyggð eru þjóðvegir sem teljast meðal hættulegustu þjóðvega landsins. Þeir liggja utan í bröttum fjallshlíðum.
 • Fjallabyggð er með 4 jarðgöng þar sem stór og erfið slys geta átt sér stað. Hvað gerist ef það verður stórt slys þar sem margir slasast? Í viðbragðsáætlun jarðgangnanna er gert ráð fyrir viðbragðsteymi beggja megin gangnamunnana mönnuðu fagfólki. Í viðbragðsáætluninni segir: „Í þessari áætlun er fjallað um öll viðbrögð og aðgerðir ef óhöpp og slys verða eins og um ein göng sé að ræða. Ástæðan er sú að líkur á að óhapp verði á sama tíma í báðum göngum eru hverfandi og því ekki fjallað um það tilvik. Talið er að litlu skipti í hvorum göngunum óhapp verður, björgunaraðilar koma að báðum gangamunnum frá Siglufirði og Ólafsfirði þannig að annar hópur björgunaraðila verður alltaf í Héðinsfirði og hinn við munna Siglufjarðar- eða Ólafsfjarðarmegin við göngin sem óhappið verður.“
 • Skólarútan bæði með grunnskólanemendur og framhaldsskólanemendur gengur á milli bæjarkjarnanna oft á dag og oft brestur á með vondu veðri og erfiðri færð sem orsakar almennt mjög erfiðar aðstæður í Héðinsfirðinum á milli gangnanna og sitt hvoru megin við göngin.
 • Ef sjúkrabíll fer í útkall og þarf að fara inn á Akureyri þá eru að minnsta kosti 3 – 4  klst. og oftar en ekki lengri tími sem enginn sjúkrabíll yrði í bæjarfélaginu.
 • Í mjög mörgum tilfellum sem við höfum farið í útköll þá hafa mínúturnar í viðbragðstímanum skipt öllu máli fyrir lífsmöguleika sjúklingsins
 • Í Ólafsfirði er kominn framhaldsskóli með miklum fjölda nemenda og stór hluti þeirra er að ferðast með einkabílum fyrir Múlann frá Ólafsfirði til Dalvíkur og um vegakaflann milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar sem mjög oft verður illfær/ófær í þeim veðrum sem eru hérna fyrir norðan á veturnar. Og veit ég allavega 2 bílveltur núna á árinu 2017þar sem nemendur voru ýmist á leiðinni í eða úr framhaldsskólanum og sjúkrabíllinn í Ólafsfirði var kallaður úr í.
 • Ástundun á jaðarsporti á Tröllaskaganum hefur aukist stórlega, það er verið að flytja fólk á fjöll með þyrlum og snjótroðurum svo það geti skíðað niður, fólk er að labba á fjöll á Tröllaskaganum öllum í auknum mæli og allmargir þeirra skíða niður, það er mikið um að hér sé verið á brimbrettum á vorin. Einnig koma hér stórir hópar vélsleðafólks á hverju ári til að rúnta Tröllaskagann þveran og endilangan. Sérstaklega hér í Ólafsfirði.
 • Það hefur heyrst að uppi séu tilraunir til að koma á fót nýrri atvinnustarfsemi í Ólafsfirði sem myndi bæta við 60 – 70 störfum í Ólafsfirði og ef þetta gengur upp má reikna með því að íbúatalan gæti hækkað um á milli 150 – 250 manns.
 • Það fyrirkomulag sem forsvarsmenn Heilbrigðisstofnunar Norðurlands eru að leggja til að verði tekið upp er byggt á frekar veikum stoðum. Að ætla sér að stofna, hvort sem það er innan slökkviliðsins eða björgunarsveitarinnar, viðbragðsteymi sem inniheldur 12 einstaklinga í sjálfboðavinnu, hafa hugsanlega ekki séð það fyrir hvernig eða hvort hægt sé að koma því fyrir. Og að halda því fram að sjúkrabíllinn í Ólafsfirði verði staðsettur áfram í Ólafsfirði áhafnalaus er væntanlega bara fyrirsláttur og til þess gert að slá ryki í augu íbúa Fjallabyggðar.Og hvernig ætlar HSN að haga því hvernig aðgengi að sjúkrabílnum, og þar af leiðandi þeim búnaði og lyfjum sem í honum er, verður. Þarna inni í bílskúrnum er einnig geymdur annar bíll sem er í notkun Heilsugæslunnar, og í honum búnaður til notkunar í útköllum fyrir hann.
 • Það eru mörg dæmi þess að sjúkrabílar hafi staðið notkunarlausir inni í bílskúrum víða um landið árum saman vegna þess að þeim sem á þeim unnu var sagt upp störfum.

Ég skora hér með á Jón Helga Björnsson forstjóra HSN að hann komi í Ólafsfjörð og haldi opinn fund fyrir íbúa Tröllaskagans í Menningarhúsinu Tjarnarborg og leggi fram rökstuðning HSN fyrir þessari aðgerð áður en þau leggja niður starfsemi sjúkrabílsins í Ólafsfirði.

 Áhafnalaus sjúkrabíll!!!
Er gagnslaus sjúkrabíll!!!

Undirritaður vann í nokkur ár sem sjúkraflutningamaður í Ólafsfirði og er því vel kunnugur því hversu nauðsynlegt er að sjúkrabíllinn verði áfram starfandi í Ólafsfirði. Einnig er ég varabæjarfulltrúi B-listans í Fjallabyggð.

Jón Valgeir Baldursson
Íbúi í Ólafsfirði / Fjallabyggð.