Opið bréf Kristjáns L Möller til stjórnar UÍF með ósk um að formaður stjórnar svari eftirfarandi spurningum f.h. stjórnar UÍF.

Undanfarin misseri hef ég undirritaður fengið ansi mörg símtöl frá ýmsum vinum mínum á Siglufirði úr íþróttahreyfingunni, sem hafa verið að ræða við mig um þann orðróm sem hefur gengið í bænum um að stjórn Ungmenna og íþróttasambands Fjallabyggðar ( UÍF ) hafi haft uppi áform um að selja Íþróttamiðstöðina að Hóli Siglufirði eins og hún leggur sig.

Aðallega hafa þessir aðilar verið að leita upplýsinga hjá mér sem fyrrverandi Íþróttafulltrúa Siglufjarðar þar sem aðal uppbygging Hóls var á þeim árum sem ég starfaði sem Íþróttafulltrúi. Hafa spurningar komið m.a. fram um gjafaafsalið og hugsanlegar kvaðir sem fylgdu gjöfinni frá bænum á afmælisárinu 1968, einnig og aðallega um hver hafi kostað uppbygginguna á Hóli og hvernig hún var fjármögnuð.

Mörgu gat ég svarað þessum vinum mínum um hina gömlu tíð, og stuðst þá við dagbækur mínar frá þessum tíma svo og upprifjanir og ekki síður myndaalbúm, þar sem myndir geyma sögu vel.

Þetta hefur verið skemmtileg upprifjun á þessum uppbyggingarárum íþróttamannvirkja á Siglufirði.

En hvað mér finnst um hugsanlega sölu, hef ég svo sem ekki miklu getað svarað, enda vantar mig upplýsingar og þær forsendur sem liggja að baki – ef þær eru til.

En undanfarin tvö kvöld hef ég fengið samtöl þar sem fullyrt er að stjórn UÍF hafi ákveðið að selja Íþróttamiðstöðina og því sest ég niður og skrifa- sem meðlimur í íþróttafélögum á Siglufirði / Fjallabyggð og sem íbúi í Fjallabyggð- formanni UÍF fyrir hönd stjórnar þetta opna bréf með eftirfarandi spurningum og óska eftir svari sem allra fyrst á þessum vettvangi:

  1. Er það rétt að stjórn UÍF hafi samþykkt að selja Íþróttamiðstöðina Hól Siglufirði?
  2. Og ef svo er hvaða rök eru fyrir þeirri ákvörðun?
  3. Og hver er söluupphæðin?

Ég kýs að senda þetta bréf og þessar spurningar til stjórnar UÍF og sérstaklega til formanns stjórnarinnar með ósk um skjót svör.

 

Virðingarfyllst og með íþróttakveðju

Kristján L. Möller

Fyrrverandi Íþróttafulltrúi Siglufjarðar